154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:26]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um jólabónus til handa langfátækustu eldri borgurunum sem búa á Íslandi í dag. Það er svolítið galið og eiginlega dapurt þegar hæstv. ráðherra kemur hér og talar um þetta eins og við séum að fara að biðja um jólabónus fyrir 60.000 eldri borgara. Það er langt frá því. Hér erum við einungis að tala um rúmlega 2.000 einstaklinga sem eru í slíkri fátæktargildru að það sér ekki úr augunum út. Við erum að tala um einstaklinga, að helmingurinn af þeim, rúmlega 1.000, voru öryrkjar og eru komnir yfir það að verða ellilífeyrisþegar og hafa þar af leiðandi lækkað enn frekar í framfærslu sinni frá Tryggingastofnun. Hinn helmingurinn er að mestu leyti eldri konur sem eiga engin réttindi í lífeyrissjóði. Við erum að tala um sárafátækt, eldra fólk sem er verið að mismuna hér hrapallega og eitt er víst að það skulu allir fá að vita það hvers lags hjartalag er í þessari ríkisstjórn. — Ég segi já.