135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Um mannréttindabrotin í Guantanamo verður aldrei of mikið fjallað og aldrei of oft ítrekaðar óskir og kröfur um að íslensk stjórnvöld fordæmi þau með afgerandi hætti. Það hefur þegar verið gert að sögn fyrrverandi ríkisstjórnar. Það var þó gert með svo linkulegum hætti að nánast var um að ræða mótmæli í kyrrþey eftir að samtök launafólks, Amnesty International og ungliðahreyfingar nokkurra stjórnmálaflokka höfðu barið lengi á dyrnar. Íslensk stjórnvöld og íslenskir ráðherrar hafa aftur og ítrekað gengið á fund starfsbræðra sinna og systra vestra án þess að við þessu máli sé hreyft.

Það verður ekki sagt að heimurinn viti ekki hvað á sér stað í Guantanamo. Ég er með úrklippusafn úr fjölmiðlum frá undanförnum árum, nánast tekið af tilviljun. Ég staðnæmist við frétt um miðjan júlímánuð árið 2005. Þar segir frá dæmum af líkamlegum og ekki síður andlegum pyndingum í Guantanamo þar sem yfirpyndingameistari um nokkurra missira skeið frá árinu 2002, Miller að nafni, skýrði frá því hvernig staðið væri að pyndingum. Bandaríska fréttastofan CNN segir frá því á þessa leið að yfirheyrslurnar hafi hafist á staðhæfingum um ættingja fanganna, í þessu tilviki að móðir og systur viðkomandi væru vændiskonur. Fanginn hafi verið látinn setja upp brjóstahaldara, leðurólar hafi verið settar yfir höfuð hans og síðan hafi hann verið látinn dansa við karlkyns fangavörð. Þá var hann látinn afklæðast til að hægt væri að leita á honum, sem kallað var þótt það væri þarflaust við þessar yfirheyrslur, grimmir hundar látnir ógna honum, hann hafi verið látinn standa nakinn frammi fyrir kvenfólki í fangelsinu og síðan þröngvað til að skríða um eins og hundur með ól um hálsinn. Þegar þessu var lokið gátu menn byrjað að spjalla saman.

Það var Miller yfirfangavörður sem greindi frá. Hann sagði bandarísku fréttastofunni að þetta flokkaðist að sínu mati ekki undir pyndingar. Í fréttaumfjöllun CNN kom fram að Miller hefði látið af yfirfangavarðarstarfinu í Guantanamo en gegndi nú virðulegu embætti í bandaríska varnarmálaráðuneytinu.

Ég staðnæmist við fréttir frá maílokum árið 2005. Þá greinir Morgunblaðið frá því í ágætri frétt um ásakanir sem fram hefðu komið að Kóraninn hafi verið óvirtur í fangabúðum Bandaríkjamanna í Guantanamo til að ögra múslimskum föngum þar en í þessari frétt segir m.a., með leyfi forseta:

„Jay Hood hershöfðingi sagði á fréttamannafundi í fyrradag að ásakanir um að Kóraninn hefði verið svívirtur væru 13 en sannanir fyrir slíku lægju fyrir í fimm tilvikum. Fjórum sinnum hefðu fangaverðir átt í hlut en einu sinni maður sem annaðist yfirheyrslur. Þrisvar sinnum hefði verið um ásetning að ræða en tvisvar vangá. Vildi Hood ekki segja frá því í hverju óvirðingin hefði falist. Lawrence Di Rita, talsmaður Donald H. Rumsfelds varnarmálaráðherra, var á fundinum með Hood og sagði að nú ætti að vera ljóst að í Guantanamo væri borin mikil virðing fyrir trú fanganna.“

Síðan var hægt að sanna að Newsweek hefði í einhverjum tilvikum farið með ýkjur, t.d. varðandi það að Kóraninum hefði verið sturtað niður í klósettið. Eftir að sönnur höfðu verið færðar á þetta komu fulltrúar bandaríska varnarmálaráðuneytisins fram og sögðu að nú ætti vera ljóst að í Guantanamo væri borin mikil virðing fyrir trú fanganna.

Ég get haldið áfram. Ég get haldið áfram með dæmi þar sem fjölmiðlum er þröngvað til að draga ásakanir sínar til baka og orðhengilshátt af þessu tagi. Þeir hafa verið sakaðir um að sverta ímynd Bandaríkjanna, ekki böðlarnir, ekki pyndingarböðlarnir, þeir sverta enga ímynd. Það eru hinir sem frá því greina.

Spurning mín til okkar allra er þessi: Hvað þarf að gerast til þess að við hættum að fara niður á hnén og biðja forsvarsmenn þessara böðla að veita okkur vörn, vörn gegn öllu illu? Getur verið að mönnum finnist engin tengsl vera á milli þess sem við gerum þegar við ræðum svokallað varnarsamstarf við Bandaríkjastjórn og þess sem sama stjórn aðhefst í Abu Graib, með innrásinni í Írak, með innrásinni í Afganistan, með pyndingunum í Guantanamo? Finnst okkur engin tengsl vera þarna á milli? Hversu firrt erum við eiginlega orðin þegar við horfum fram hjá grófustu mannréttindabrotum síðari tíma? Síðan þegar við leyfum okkur að orða þessi tengsl eins og gert var fyrr í dag þegar við ræddum um svokallað varnarsamstarf við NATO og Bandaríkin, var talað um að þetta væri í nösunum á okkur.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð en ég ætla að skilja þessa spurningu eftir hjá okkur öllum.