152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

staða, horfur og þróun í fjarheilbrigðisþjónustu.

[15:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að uppbygging fjarheilbrigðisþjónustu á næstu árum og áratugum verði eitt af stóru framfaramálum okkar tíma þegar litið er til byggðajafnréttis og framtíðar byggðar út um allt land. Í dag er aðgengi fólks af landsbyggðinni að sérfræðiþjónustu skert þegar það er borið saman við höfuðborgarsvæðið. Ekki skert í því tilliti að þjónustan standi þeim ekki til boða heldur skert vegna fjarlægðar frá þeim stofnunum sem stærstan hluta sérfræðiþjónustu veita. Og það er einmitt megininntakið í þessari umræðu hér í dag.

Eins og nafnið gefur til kynna er fjarheilbrigðisþjónusta fjarskiptalausn sem nýtt er til þess að veita þjónustu án þess að sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn séu á sömu heilbrigðisstofnun eða í sama herbergi og opnar þannig á ótal tækifæri sem ekki eru til staðar í hinu hefðbundna fyrirkomulagi. Þetta þýðir að sækja má þjónustu sem ekki er veitt utan höfuðborgarsvæðisins á heilsugæslum og sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og jafnvel heimilum fólks gerist þess þörf hvar sem er á landinu. Tæknilausnum í fjarheilbrigðisþjónustu í heimahúsum hefur vaxið fiskur um hrygg og með þeim má veita fjölbreyttari heilbrigðisþjónustu, eins og ég sagði áðan, inni á heimilum fólks. Þannig geta samskiptin við lækna, hjúkrunarfræðinga og jafnvel ljósmóður átt sér stað í stofunni heima með tilheyrandi þægindum fyrir skjólstæðinga þjónustunnar.

Vert er þó að minnast á það að stundum getur fólk þurft að hitta sérfræðilækna í fyrsta sinn í raunheimum en fengið eftirfylgni í framhaldinu. Með því að innleiða í meira mæli fjarheilbrigðislausnir úti um allt land sparast tími og peningar sem annars hefðu farið í langferðir landshorna á milli. Ég tel að þetta greiðara aðgengi muni auka aðsókn í læknaþjónustu og tel það vel fyrir heilsu landsmanna. Sömuleiðis minnkar álag inni á heilbrigðisstofnunum vegna gestakoma eða öllu heldur dreifist á fleiri hendur á fleiri stöðum.

Í því samhengi er mikilvægt að við skoðum vel hvernig breyta þarf núverandi greiðslulíkani og skiptingu kostnaðar milli stofnana en fé til heilbrigðisstofnana er misjafnt eftir umfangi eins og gefur að skilja. Þá þarf sömuleiðis að kanna hvaða búnað þurfi til verksins, þjálfa starfsfólk, auka endurmenntun með tilliti til fjarheilbrigðislausna og móta verkferla. Síðustu ár hafa kennt okkur mikið um ágæti nýrra fjarskiptalausna og það sem hljómaði fyrir faraldurinn eins og framtíðarmúsík hefur hitt hressilega á okkur í dag, ekki síst í gegnum Covid-faraldurinn. Nokkuð hefur borið á því að sjálfstætt starfandi sálfræðingar hafa boðið upp á viðtöl í gegnum netið sem hefur reynst vel og það er jákvæð þróun. Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að líta til fjargeðheilbrigðisþjónustu sem ákveðins forgangsverkefnis á þessari vegferð. Við þekkjum það að hvers konar sálgæsla þykir viðkvæm þeim sem hana sækir og þó að það sé sannarlega einstaklingsbundið og vitundarvakning hafi átt sér stað í þeim efnum má færa rök fyrir því að það sé einmitt sú þjónusta sem ákjósanlegast er að veita í fjarþjónustu, bæði vegna þess sem ég nefni hérna en fyrst og fremst vegna þess að þrek þeirra sem glíma við erfiðan tilfinningavanda er oft svo lítið að viðkomandi kemst vart á fætur.

Erlendis hafa fjarheilbrigðislausnir vegna innkirtlalækninga, offitu, sykursýki, beinþynningar, háþrýstings og fleiri sjúkdóma sem krefjast langtímaeftirlits gefið góða raun. Auðveldara aðgengi að slíku eftirliti fækkar alvarlegum tilvikum og afleiðingum margra þessara sjúkdóma. Hvoru tveggja, innkirtlalækningar og geðheilbrigði, eru stór heilsufarsvandamál í nútímanum og eins og við manninn mælt að nýta þessar framtíðarlausnir hér og nú.

Ég vil samt sem áður halda því til haga að fjarheilbrigðisþjónusta kemur aldrei í stað þess að halda úti grunnmönnun í heilbrigðisþjónustu í hinum dreifðu byggðum en hún er sannarlega kærkomin viðbót við það sem kallar á margs konar óþægindi fyrir þann sem þarf á slíkri þjónustu að halda, ferðalög, frí úr vinnu og annað slíkt.

Að því sögðu vil ég rifja upp þær sex spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra.

Hvaða skref hafa verið stigin í því að bæta aðgengi að fjarheilbrigðisþjónustu fyrir hópa sem eiga af einhverjum orsökum erfiðara með aðgang að heilbrigðisþjónustu í dag, t.d. vegna búsetu?

Hver er staða stefnumótunar og innleiðingar fjarheilbrigðisþjónustu á landsvísu?

Sér ráðherra tækifæri í því fyrir heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni að efla fjarheilbrigðisþjónustu?

Hvernig á að standa að sí- og endurmenntun starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni til að efla fagþekkingu á sviði fjarheilbrigðisþjónustu?

Hvaða skref á að stíga varðandi stefnumörkun í málaflokknum með tilliti til sprotaverkefna og annarrar nýsköpunar tengdri fjarheilbrigðisþjónustu?

Hvaða þættir heilbrigðisþjónustunnar telur ráðherrann að henti best fyrir fjarheilbrigðislausnir — þótt ég geri mér grein fyrir því að næstum því allt getur fallið þarna undir en þó ekki alveg allt — og er eitthvað sem við þurfum að forgangsraða umfram annað og hvar getum við byrjað?

Við þurfum líka að styðja dálítið vel við það fólk sem er að leggja sitt af mörkum til að búa til nýjar leiðir og lausnir, hvort heldur er í tengslum við augnlækningar eða sálgæslu eða hvað annað sem það heitir. Fólk er komið af stað með hugmyndir, sprotaverkefnin eru farin í gang en það vantar að klára þau með einhvers konar stuðningi, bæði hins opinbera og eins þarf að leiðbeina fólki hvert hægt er að leita. Ég bið ráðherra að koma inn á það ef hann getur.