152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

staða, horfur og þróun í fjarheilbrigðisþjónustu.

[16:13]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa góðu og mikilvægu umræðu, þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen fyrir að vekja athygli á þessu. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni hversu stórt byggðamál þetta er. Mig langaði einnig að vekja athygli á því, af því að við horfum svolítið á þetta eðlilega sem höfuðborg/landsbyggð, að komandi úr Norðausturkjördæmi þekki ég vel þær flækjur sem geta fylgt því að sækja alla sérfræðiþjónustu um langan veg, ýmist til Akureyrar eða Reykjavíkur. Annað sem mér finnst mikilvægt í þessari umræðu varðandi fjarheilbrigðisþjónustuna eru stækkandi sveitarfélög, mörg hver fjölkjarnasveitarfélög þar sem erfitt er að manna viðveru heilbrigðisstarfsfólks á öllum stöðum. Þar held ég að slík fjarþjónusta geti líka nýst.

Svo vil ég nota þær sekúndur sem ég á eftir til að ítreka það sem áður hefur komið fram. Bæði bráða- og langtímamönnunarvandi og læknaskortur á landsbyggðinni er gríðarlega alvarlegt mál og við leysum hann ekki með fjarheilbrigðisþjónustu. Eins og hv. þm. Bjarkey Olsen sagði þá verður fjarþjónustan aldrei annað en viðbót, kærkomin viðbót, en á staðnum verður auðvitað að vera grunnur til að byggja á og tryggja öryggi íbúa í öllum landshlutum.