152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

staða, horfur og þróun í fjarheilbrigðisþjónustu.

[16:15]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Notkun fjarheilbrigðisþjónustu skapar ótal tækifæri til að bæta þjónustu og jafna aðgengi. Það er margt áhugavert að gerast við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu um land allt en við útfærslu þjónustunnar birtast líka alls kyns nýjar áskoranir sem mikilvægt er að bæði ráðherra og stjórnendur í heilbrigðiskerfinu séu meðvitaðir um. Ein af þeim áskorunum er að heilbrigðisstarfsmenn verði áfram staðsettir dreift um landið og fjarheilbrigðismöguleikarnir og tæknin verði nýtt til að bæta starfsaðstæður þeirra en ekki öfugt. Þetta er það atriði sem ég legg mesta áherslu á í þessari umræðu í dag og vil brýna ráðherra í að útfæra markmið og aðgerðir til að svo verði. Margt er hægt að gera til að tæknin bæti starfsaðstæður heilbrigðisstarfsfólks dreift um landið og gæði þjónustunnar á sama tíma, með því t.d. að heilbrigðisstarfsmenn í dreifðustu byggðunum fái tækifæri til að sinna bæði staðbundnum verkefnum og verkefnum í fjarvinnu á sínu sérsviði eða áhugasviði, þeir nýti tæknina til að hafa aðgang að sérfræðiteymum og handleiðslu svo að dæmi sé nefnt. Það eru líka fleiri áskoranir eins og að fjármögnunarmódel, reglugerðir og samningar Sjúkratrygginga Íslands fylgi þróun heilbrigðisþjónustunnar. Fyrir skemmstu funduðum við þingmenn í Norðausturkjördæmi með stofnunum sem veita heilbrigðisþjónustu á svæðinu og auðheyrt var að margt áhugavert á sér stað í heilbrigðisþjónustu þar. Í því sambandi velti ég fyrir mér hvort einhver einstaklingur eða teymi hafi sérstakt forystuhlutverk á landsvísu eða hvort þróunin byggist meira á frumkvæði einstaklinga og teyma innan stofnana.