152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

staða, horfur og þróun í fjarheilbrigðisþjónustu.

[16:18]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Fjarheilbrigðisþjónusta er gríðarlega mikilvæg stoð, viðbótarstoð fyrir íbúa á landsbyggðinni, ekki síst fyrir fagfólk sem þar starfar því að ýmsir möguleikar opnast í tengslum við fjarheilbrigðisþjónustu sem við eigum að nýta okkur. En fjarheilbrigðisþjónusta gagnast líka hér á höfuðborgarsvæðinu og í stórum þéttbýliskjörnum, einmitt til þess að liðka fyrir. Þeir sem þurfa að leita ráða hjá lækni, hjúkrunarfræðingi eða öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, leita þjónustu — það kann að vera að ekki þurfi að bóka heilan tíma á starfsstöð viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns. Við eigum að nýta þessa þjónustu miklu betur, hvort tveggja fyrir landsbyggðirnar og líka fyrir þéttbýliskjarnana hér á höfuðborgarsvæðinu. Norðurlöndin og önnur nágrannaríki eru langt á undan okkur þegar kemur að þróun fjarheilbrigðisþjónustu. Við höfum einhvern veginn talað svolítið um þetta undanfarin ár en gert miklu minna í að framkvæma það sem þarf að gera. Ég man eftir því á síðasta kjörtímabili að hafa heyrt í læknum sem kvörtuðu undan því á Covid-tímum, þegar þeim var gert að auka mjög fjarheilbrigðisþjónustu, að kerfið gerði ekki ráð fyrir að hægt væri að rukka fyrir fjarheilbrigðisþjónustuna. Sjúkratryggingar voru ekki tilbúnar til að greiða fyrir þá þjónustu sem læknunum var þó uppálagt að inna af hendi. Við þurfum að láta allt kerfið ganga upp. Við þurfum öll að koma með í þetta ef við viljum liðka til til þess að þetta verði sem skilvirkast og einnig til að koma til móts við þann mikla mönnunarvanda sem er í öllu heilbrigðiskerfinu.