140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:18]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Margt gott kemur frá Evrópusambandinu og er ég mikill Evrópusambandssinni. Ég vil undirstrika við hv. þingmann að í tillögunni er einmitt hvatt til þess að líta til reglna Evrópusambandsins, Norðurlandanna, Kanada og Bandaríkja Norður-Ameríku. Ég talaði töluvert um kanadíska stofnun sem heitir Financial Consumer Agency of Canada sem ég held að sé til mikillar fyrirmyndar hvað varðar neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég get því glatt hv. þingmann með því að við samfylkingarfólk sjáum nú stundum út fyrir landamæri Evrópu.

Varðandi málið sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir er aðili að vil ég segja að mér finnst það eðlilegt að fólk leiti réttar síns ef það telur á sér brotið. Það er mjög jákvætt ef við getum sótt aðhald út fyrir landsteinana. Gjörðir mínar verður að setja undir mæliker eins og gjörðir annarra. Ég stóð að lagasetningunni sem grundvallast á dómi Hæstaréttar vegna þess að við töldum að það mundi flýta fyrir úrlausn skuldavanda að setja lög um málið, fólk gæti valið að halda sig við gamla samninga ef það kæmi betur út fyrir það og gæti enn leitað réttar síns teldi það á sér brotið. Þar var rétturinn ekki tekinn af fólki til að fara fyrir dómstóla með mál sín. Það er fullt tilefni fyrir fólk að leita réttar síns ef það telur að lagasetningin hafi verið byggð á rangindum og þá einmitt innan Evrópusambandsins, sem sýnir kannski hvað það samband er framarlega.