152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:26]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hefði gjarnan viljað að við værum með gamla fyrirkomulagið, af því að mér finnst það betra, að rætt sé um málaflokk hvers ráðherra fyrir sig sérstaklega, en vegir Alþingis eru órannsakanlegir og einhverra hluta vegna náðist ekki samstaða um það góða mál. En svo finnst mér bara mjög gott að hv. þingmenn eiga að veita ráðherrum og ríkisstjórn aðhald og spyrja gagnrýninna spurninga og það er gott. Ég veit samt ekki alveg, virðulegur forseti, því ég fæ alltaf sömu spurninguna og ég átta mig alveg á því að fyrirspyrjendur eru ekkert sáttir við svarið en það breytist samt ekkert þótt hún sé borin upp aftur. Fyrir mér er þetta bara svona og það sem ég er að reyna að draga fram núna, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt, er hvað þetta er stórt verkefni og hve margir koma að því. Það kæmi mér verulega á óvart með þær áætlanir, jafn góðar og þær eru því þetta eru vandaðar áætlanir, ef við myndum ekki breyta þeim á leiðinni. Það er bara það sem ég er að leggja áherslu á. En ég held hins vegar að við verðum aðeins að koma okkur úr því að ræða einungis um fjárlagaliði yfir í það hvernig við ætlum að gera þetta og hvernig við náum samstöðu meðal þjóðarinnar til þess að gera það. En það er auðvitað bara mín skoðun. Ég er ekki að kvarta undan þessu, hv. þingmenn mega spyrja mig að öllu sem þeir vilja og jafn oft og þeir vilja, en ég verð hins vegar að valda mönnum vonbrigðum því að svörin við sömu spurningunum breytast ekkert þó að þær séu bornar upp oft.