152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:28]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir — ég get eiginlega ekki sagt svörin [Hlátur í þingsal.] en hann var þarna a.m.k., hæstv. ráðherra var þarna. Það eru ákveðin vonbrigði að við fáum engin svör við þessum spurningum að því að þetta eru ofboðslega sjálfsagðar spurningar. Jú, það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir hér, hann sakni þess að það sé rætt kannski meira um útfærslu o.s.frv. Við höfum næstu mánuði og allt kjörtímabilið til að ræða um útfærslur og það mun ekki standa á okkur í stjórnarandstöðunni og okkur í Samfylkingunni að veita ríkisstjórninni aðhald og leggja fram lausnir í loftslagsmálum. En hér erum við einfaldlega að ræða um fjárlög. Það er nú bara þannig. Við erum að ræða um tekjur og gjöld næsta árs og ég sakna þess svolítið (Forseti hringir.) að það sé ekki meira framlag frá hæstv. ráðherra sem var að taka við og að það sjáist í rauninni engin merki (Forseti hringir.) þess í fjárlögum að það sé komin ríkisstjórn sem ætlar að styðjast við metnaðarfyllra markmið í loftslagsmálum heldur en ríkisstjórnin gerði á síðasta kjörtímabili.