152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er gott að heyra að þingmaðurinn er sammála mér um að þarna séu mörg og mikil tækifæri. Það er von mín að hæstv. ráðherra sem hér situr og þessi mál tengjast nýti sér þessa umræðu til þess að gera góða hluti á þessu sviði.

En mig langaði örstutt að tala um annað sem hv. þingmaður nefndi, og það eru völd ráðherra. Nú sitjum við hér í þessum sal og erum búin að vera að rýna frumvarp sem er búið að segja margoft að sé ekki tilbúið, að það eigi eftir að breyta svo miklu. Sem nýjum þingmanni finnst mér þetta vera skelfilegt, að við fáum eitthvað í hendurnar sem ekki er tilbúið. Það hafa hins vegar verið mjög góðar umræður hér hjá hv. þingmönnum á sama tíma og nær enginn úr stjórnarliðinu, fáir ráðherrar og fáir fulltrúar ríkisstjórnarinnar í fjárlaganefnd, hafa gefið sér tíma til að vera hérna inni. Mig langar að heyra hug hv. þingmanns, hvað þingmanninum finnst um svona vinnubrögð.