138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:57]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér ræðum við fjárlög ársins 2010. Mig langar að gera mennta- og menningarmál að umtalsefni mínu í dag.

Í gær varð ég þess heiðurs aðnjótandi að hitta glænýja manneskju, aðeins nokkurra klukkustunda gamalt undurfagurt stúlkubarn. Hún minnti mig rækilega á hvað það er í þessu lífi sem skiptir máli í raun og veru. Það er okkar hlutverk að gæta þess að þessi litla stúlka fái að ganga í jafngóða skóla og hefði hún fæðst árið 1989 eða 1999.

Mér skilst að íslenska skólakerfið sé dýrt í samanburði við menntakerfi annarra landa en árangur nemendanna bara rétt í meðallagi. Nú þurfum við að standa vörð um þetta kerfi en jafnframt nota tækifærið og bæta það og gera það skilvirkara svo við fáum meira fyrir peningana okkar. Mikilvægast er að börnunum okkar líði vel í skólanum, þar sé þeim tryggð menntun á heimsmælikvarða og að þau séu örugg. Við þurfum að kenna þeim skapandi hugsun og góð vinnubrögð, frekar en að troða í þau utanbókarlærdómi og steypa þau öll í sama mótið.

Eitt af því sem ég tel standa íslenskum grunnskólum fyrir þrifum er takmörkuð útgáfa námsefnis og einokun ríkisstofnunar á því sviði í gegnum árin. Þegar synir mínir voru að læra að lesa komu þeir oft heim með lestrarbækur úr skólanum sínum þar sem zetan — bókstafur sem var lagður af úr íslensku ritmáli árið 1973 — var enn í fullu gildi. Á sama tíma var mikil gróska í íslenskri barnabókaútgáfu, en skólarnir gátu ekki nýtt sér þann bókakost til lestrarkennslu vegna þess að þeir voru skuldbundnir til að versla við eitt ríkisforlag, Námsgagnastofnun. Þá fundum við bæði Sovétríkin og Júgóslavíu í kennslubók í landafræði löngu eftir endalok þeirra ríkja.

Síðustu ár hafa skólarnir fengið fjármuni og góðfúslegt leyfi til að versla við aðra útgefendur og tryggja þarf að svo verði áfram. Einkareknar bókaútgáfur hafa séð framhaldsskólum fyrir námsefni og að mörgu leyti er mun meiri gróska í útgáfu námsefnis fyrir framhaldsskóla en grunnskóla og kennarar hafa val þegar kemur að námsefni, í það minnsta í fjölmennustu námsgreinunum. Bókaútgefendur hafa sýnt það og sannað að þeim er treystandi til að gefa út vandað námsefni handa íslenskum nemendum.

Frú forseti. Síðustu ár fyrir hrunið fannst mér tíðarandinn oft vera farinn að minna á síðustu daga Rómaveldis. Við lifðum tíma þar sem peningar skiptu meira máli en fólk, við horfðum upp á siðrof í samfélaginu, lög giltu bara um suma. Menn átu gull, ekki vegna þess að það væri gott á bragðið heldur vegna þess að þeir gátu það. Skynsemin vék fyrir óráðsíu og mennskan vék fyrir mammoni.

Menningin er grundvöllur mennskunnar. Án menningar erum við skepnur. Og um menninguna þurfum við að standa vörð.

Mörgum í ræðustóli Alþingis í dag hefur orðið tíðrætt um nauðsyn þess að skapa störf. Við þurfum að framleiða, segja menn, en það má framleiða fleira en ál. Hvert starf í álverinu á Reyðarfirði kostaði 230 milljónir. Störf í menningariðnaði eru frekar ódýr og oft þarf lítinn styrk til að hrinda risavöxnu og arðbæru verkefni af stað. Það er því ódýrt að búa til störf í þessum geira, áhugaverð störf sem eru gefandi fyrir þá sem þau vinna, en ekki síður fyrir þá sem fá að njóta afrakstursins. Þá eru afleidd störf menningar og listsköpunar mun fleiri en í flestum öðrum greinum atvinnulífsins. Það er því mun skynsamlegra að skapa störf á sviði menningar og lista en í stóriðju, auk þess sem fórnarkostnaðurinn er mun minni og almennt séð eru þau bæði umhverfis- og samfélagsvæn.

Hagræn áhrif tónlistar hafa verið rannsökuð nokkuð, en á hverju ári skila tónlistarmenn mun meiri tekjum í þjóðarbúið en þeir hljóta í styrki. Nægir að nefna Björk og hljómsveit eins og Sigur Rós því til staðfestingar. Auk þess eru mikil óbein áhrif á aðrar atvinnugreinar, svo sem ferðaþjónustu. Þá hafa kvikmyndagerðarmenn mikið til síns máls þegar þeir benda á að hver króna sem íslenska ríkið leggur til kvikmyndagerðar margfaldast í formi styrkja frá öðrum löndum sem fást ekki nema til komi íslenskt framlag. Það er því einfaldlega vondur bisness að skera niður framlög til íslenskrar kvikmyndagerðar.

Frú forseti. Menn fjargviðrast oft yfir framlögum til menningarmála og stundum er ég alveg sammála. Mér finnst oft illa farið með fé til menningarmála, því oft og tíðum er því sóað með ómarkvissum hætti á meðan fagleg og vel unnin verkefni hljóta mun minni fjárhæðir. Sem dæmi vil ég nefna Bókmenntasjóð. Sjóðurinn fær 50 milljónir á ári. Fyrir það fé skal sjóðurinn kynna íslenskar bækur erlendis, styrkja höfunda til ferðalaga og fá erlenda blaðamenn hingað. Hann skal styrkja þýðingar erlendra verka á íslensku og þýðingar íslenskra bóka á erlend mál. Og hann á líka að styrkja útgáfur grundvallarrita á íslensku og bækur sem sjaldnast skila arði, t.d. myndskreyttar barnabækur. Auk þess þarf hann að reka skrifstofu og forstöðumann. Gerðar eru mikla faglegar kröfur til þeirra verkefna sem styrk hljóta og fylgst með því að bækurnar skili sér til lesenda sinna á bókamarkað. 50 milljónir duga skammt til allra þessara þátta en engu að síður skipta þær sköpum. Árlega koma út 1.500 bækur á íslensku sem er hreint ótrúlegt afrek. Með sanni má segja að eitt af undrum veraldar sé svo frjór bókamarkaður á jafnlitlu málsvæði sem er rekinn án umtalsverðra ríkisstyrkja.

Síðustu ár hefur fjárlaganefnd hins vegar úthlutað á bilinu 80–100 millj. kr. til bókaútgáfu, þ.e. allt að tvöfaldri þeirri upphæð sem Bókmenntasjóður fær úthlutað. Þar eru engar faglegar kröfur gerðar og sumar bækurnar sem styrktar eru koma aldrei út. Þeim peningum má allt eins henda út um gluggann og m.a. þar finnst mér að beita eigi niðurskurðarhnífnum.

Til er áreiðanleg verðvísitala íslenskrar myndlistar. Í lok ársins 2005 stóð hún í 142,02 stigum. Í góðærinu fór hún á talsvert flug og hefur stigið töluvert aftur. Í dag stendur hún í 159,45 stigum. Verðgildi íslenskrar myndlistar hefur því hækkað um 12% umfram hækkun neysluverðsvísitölu. Það er ágætisávöxtun á tímum sem þessum. Á sama tíma hefur markaður með verðbréf í íslenskum fyrirtækjum hríðfallið og nánast lagst af. Úrvalsvísitalan hefur fallið um 75% og fyrirtækin sem hana mynda eru jafnvel ekki til, en myndlistin lifir — og hún verður til áfram til, okkur til ánægju og yndisauka, jafnvel þótt hún lækki e.t.v. eitthvað í verði á næstu árum. Fjárfesting í menntun og menningu borgar sig nefnilega alltaf og því skulum við ekki gleyma.