152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:05]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að eiga orðaskipti við hv. þingmann í framhaldi af umræðu hans hér rétt í þessu um jafnréttismál. Hann ræddi þar um jafnlaunavottunina og innleiðingu hennar og hugmyndafræði þar um í kjölfar lögfestingar eða gildistöku laga og mér hefur fundist áhugaverð og umhugsunarverð tvíhöfða nálgun þessarar ríkisstjórnar gagnvart jafnlaunavottuninni. Forsætisráðherra, sem færði jafnréttismálin til sín væntanlega í þeim tilgangi að gera þeim hærra undir höfði, hefur mikið rætt um þýðingu jafnlaunavottunar fyrir Ísland á alþjóðavettvangi, mikið rætt um þetta mál erlendis þar sem Ísland stærir sig af því og getur vitaskuld verið stolt af því hver árangurinn er í jafnréttismálum, en á sama tíma var það eitt fyrsta verk þáverandi félagsmálaráðherra að fresta gildistöku laganna og hv. þingmaður er hér að lýsa því líka hver nálgunin var um t.d. framkvæmd á jafnlaunavottun hjá Stjórnarráðinu sjálfu. Mér hefði fundist það spegla betur pólitík forsætisráðherra að félagsmálaráðherra hefði staðið með þessu máli keikur og stoltur.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í framhaldi af umræðu um jafnlaunavottun varðandi jafnréttismálin eins og þau birtast í stjórnarsáttmála og í fjárlagafrumvarpi. Ég fæ ekki betur séð en að þær áherslur sem t.d. (Forseti hringir.) eru tilteknar um kynbundið ofbeldi séu nákvæmlega hinar sömu og unnið var eftir á síðasta kjörtímabili, ekkert nýtt að frétta.