152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að deila með hv. þingmanni brandara, þessi brandari er á síðu 333 í fjárlagafrumvarpinu og er svohljóðandi:

„Markmið 1: Launajafnrétti verði náð – kynbundnum launamun verði útrýmt.“

Þar undir er aðgerðin að tryggja innleiðingu jafnlaunavottunar innan settra tímamarka með ábyrgðaraðilann forsætisráðuneyti og breytingu á fjárveitingu til verkefnisins innan ramma. Þetta er brandari vegna þess að þú vinnur ekki bug á kynbundnum launamun innan fjárhagsramma sem þegar er til staðar, nema náttúrlega að forsætisráðherra sé að boða þá byltingarkenndu hugmynd, sem er alveg góðra gjalda vert að ræða, að lækka karlana sem eru á of háum launum niður í laun kvennanna sem eru á of lágum launum, að jafna þetta innan ramma. En ég er ekki viss um að það sé það sem vakir fyrir ráðherranum heldur óttast ég miklu frekar að þetta endurspegli alvöruleysið sem er gagnvart þessum málaflokki hjá ráðherra. Þarna á að skreyta sig frekar en að gera eitthvað. Vandinn með jafnlaunavottun er að þegar teknar eru út jafn litlar einingar og ráðuneytin eru, þar sem störf skiptast í jafn marga starfsflokka og raunin er þar, þá er hægt að bleikþvo ráðuneytin með mjög litlum tilkostnaði. Þannig að viljandi eða óviljandi er hægt að fela launamuninn innan ráðuneytanna.

Hvað varðar jafnréttiskaflann í stjórnarsáttmálanum þá er hann náttúrlega annar brandari. Hann er þetta langur, sem snýr sérstaklega að jafnréttismálum. Ég hef þar að auki gríðarlegar áhyggjur af því hvaða fólk á að veljast til þess verks að fylgja eftir réttarúrbótum á sviði kynferðisbrotamála sérstaklega, (Forseti hringir.) verkefni sem var sett af stað fyrir svona þremur ríkisstjórnum. Það er búið að skrifa lokaskýrslurnar nokkrum sinnum (Forseti hringir.) og það þarf bara að fara að gera hlutina og núverandi ráðherra dómsmála (Forseti hringir.) held ég að sé ekki maðurinn í það.