154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

viðbrögð við stöðu Íslands í PISA-könnuninni.

[10:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í forsetaúrskurði kemur einfaldlega fram að það er mennta- og barnamálaráðherra sem ber ábyrgð á fræðslumálum, m.a. leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, þannig að það er menntamálaráðherra sem ber ábyrgð á ástandinu í menntamálum þjóðarinnar, enginn annar. Það er alltaf talað um að það sé engin ein aðferð, það sé ekki neinn einn sökudólgur eða neitt svoleiðis. Jú, það er einn einstaklingur sem ber ábyrgð á stjórnkerfi menntamála í landinu. Það er hæstv. menntamálaráðherra, svo það er alveg á hreinu. Það er alveg kristaltært að hugsmíðahyggjan og svokallað byrjendalæsi hefur ekki skilað nægilegum árangri. Það vissum við strax árið 2015 en samt höldum við áfram með sömu aðferðirnar. Við erum að beita rangri kennsluaðferð. Við eigum að beita beinni kennslu, hugmyndafræði beinnar kennslu. Þetta er eins og að læra mannganginn. Það lærir enginn að tefla skák nema að læra mannganginn. Sama með tónlist. Og það lærir enginn að lesa nema að skilja að bókstafurinn A hljómi eins og A. Það er bókstafahljóðaðferðin. Ég get tekið sem dæmi að 42 ríki Bandaríkjanna hafa breytt um kúrs. (Forseti hringir.) New York-ríki var líka að gera það nú síðast. Ísland virðist ekki ætla að gera það heldur á að taka umræðuna (Forseti hringir.) og það þarf að skoða málin, það þarf að ræða þetta, það er ekki neitt eitt, það á enginn að gera neitt. Það ætlar enginn að viðurkenna það að við séum á rangri braut. (Forseti hringir.) Ætlar hæstv. ráðherra að viðurkenna það að við höfum verið á rangri braut eða ekki? Já eða nei?

(Forseti (BÁ): Forseti minnir aftur á ræðutímann sem er takmarkaður.)