154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég hygg að við séum sammála um mikilvægi þessarar þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af fjármögnun grunnrannsókna sérstaklega, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Ég ætla ekki að segja að ég væri ekki tilbúin að setja meiri pening í akkúrat það og ég veit að hv. þingmaður þekkir það vel, sitjandi í fjárlaganefnd, að það er spurning um forgangsröðun í ákveðin verkefni. Ég ætla þó að segja það að þeir fjármunir sem varið hefur verið í grunnrannsóknir en líka nýsköpunaráætlanir, tækniuppfærsluverkefni og annað á síðustu misserum hafa skilað gríðarlega miklum árangri og þessir fjármunir hafa vaxið að raungildi ár frá ári. Þeir hafa gert það og þeir hafa skilað því nú að þekkingarsamfélagið er orðin grunnstoð í atvinnulífi Íslendinga. Með þessari þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram þá viljum við stefna enn hærra og tryggja enn frekar þá stoð.

Ef hv. þingmaður er hér að vísa í svokölluð Covid-framlög þar sem við settum enn frekari peninga í Rannís, bæði í Tækniþróunarsjóð og aðra sjóði þar, þá er rétt að það var litið á það sem tímabundið framlag og það er alltaf erfitt þegar verið er að taka slíkt af. En mér skilst að 75% af því tímabundna framlagi sé orðið varanlegt. En það var þó ákveðið á þeim tíma að það væri tímabundið framlag vegna þeirra aðstæðna sem uppi voru í samfélaginu þá. Þannig að, virðulegur forseti, ég tel að fjármögnun þessa mikilvæga málaflokks sé góð þó ég myndi alls ekki slá hendinni á móti enn meira fjármagni í hann. Það þarf þá ákveða líka á sama tíma hvaðan það kemur. En ég tel að vísindasamfélagið á Íslandi hafi sannað að þeir fjármunir sem ríkið hefur varið í þennan málaflokk hafi skilað sér margfalt til baka.