137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal og fyrrverandi formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis fyrir fyrirspurnina. Hann hefur löngum verið sérstakur áhugamaður um vörugjöld og gott að búa að reynslu hans sem formanns nefndarinnar. Um þetta er það að segja að við erum í efnahags- og skattanefnd í þeim erfiða leiðangri að auka hér skattheimtu og meðal annars að taka upp eldri skattheimtu og það var það sem við gerðum að verulegu leyti hér í ráðstöfunum í ríkisfjármálum í lok síðasta mánaðar og í nokkurri tímapressu, eins og menn þekkja, fyrir mánaðamótin eins og oft er í afgreiðslu skattamála og hv. þingmaður þekkir. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þá urðu mistök í dagsetningu sem gerðu það að verkum að við þurftum að leiðrétta málið hér inn.

Að segja hins vegar að það sé tilraunalagasetning, í því hittir nú hv. þingmaður sjálfan sig fyrir vegna þess að við erum jú ekki að gera annað en að taka aftur upp þau vörugjöld sem voru í gildi þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal var formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og voru hér í gildi árum og áratugum saman og voru innleidd með sérstökum rökstuðningi. (Gripið fram í.) Auðvitað eru þau þess eðlis vegna þess að vörugjöldin eru mjög flókinn gjaldaflokkur eins og menn þekkja og ekki gallalaus. (Gripið fram í.) Auðvitað eru þau þess eðlis að þau þurfa að vera í stöðugri endurskoðun og við notum núna tækifærið þegar dagsetningin er leiðrétt. Það voru þarna nokkur vörugjaldanúmer frá tíð hv. þm. Péturs H. Blöndals sem við sáum ekki að nein rök væru fyrir að féllu undir vörugjöld vegna sykurs. Við tökum þau út núna og áskiljum okkur fullan rétt til þess, eftir því sem málin þróast og skattlagning þróast, að þá þurfum við að fella út vörunúmer og bæta inn vörunúmerum til þess að mæta hinum pólitísku markmiðum að baki skattlagningunni. En það eru auðvitað þau sem hv. þingmaður er fyrst og fremst ósáttur við, sykurskatturinn.

Ég vil hins vegar segja um það mál sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir tók hér upp í upphafi og varðaði náttúruverndaráætlun, að ég var formaður umhverfisnefndar á síðasta þingi og sú áætlun fékk náttúrlega gríðarlega yfirgripsmikla (Forseti hringir.) umfjöllun á því þingi (Gripið fram í.) og sannarlega á hún að nægja sem grundvöllur (Forseti hringir.) fyrir umræðu hér í þinginu.