137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

raforkukostnaður í dreifbýli.

122. mál
[16:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin nema að því leyti að ég tel að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað annarri fyrirspurn minni þar sem ég spurðist fyrir um hversu miklum fjármunum á föstu verðlagi hafi árlega verið varið til þess að lækka raforkukostnað í dreifbýli á fyrrgreindu tímabili. Hæstv. ráðherra gaf okkur svör um það hver heildartalan væri yfir allt þetta tímabil en ekki kom svar við fyrirspurn minni sem tók til þess hverjar þessar fjárhæðir væru árlega á þessu tímabili. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi tiltæk þau gögn.

Í öðru lagi vil ég benda á það og vekja athygli á því að markmiðið með þessari fyrirspurn var að reyna að varpa ljósi á hvernig þróun raforkukostnaðar hefur verið á dreifbýlustu svæðunum, þ.e. þeim svæðum þar sem búa 200 manns eða færri, einfaldlega vegna þess að mikil umræða hefur verið uppi um að niðurgreiðslurnar og stuðningurinn til þess að lækka orkukostnaðinn á þessum svæðum hafi ekki fylgt þeirri þróun sem orðið hefur á ýmsum öðrum svæðum, m.a. á landsbyggðinni. Það sem svar hæstv. ráðherra leiðir fram, ef ég náði því rétt, er að á þéttbýlli stöðunum hefur orkukostnaðurinn hækkað að jafnaði um 15,8%, dæmin eru að vísu mjög mismunandi, en á þessum dreifbýlustu svæðum þar sem orkukostnaðurinn er hæstur hefur hækkunin verið 38,7%, sem er auðvitað miklu meira.

Það er þetta sem er algjörlega óviðunandi og segir okkur að sú gagnrýni sem hefur verið höfð uppi, m.a. í sveitum landsins og á dreifbýlustu stöðunum, um að menn hafi skilið eftir þessi svæði, hefur greinilega átt við rök að styðjast og er algjörlega réttmæt. Þetta er óréttlátt og óviðunandi og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að vinna að því að ráða bót á þessu. (Forseti hringir.) Þau áform sem ráðherra kynnti sem svar við þriðju fyrirspurn eru augljóslega ekki til þess fallin að jafna þann mun sem hefur greinilega verið að aukast (Forseti hringir.) á gildistíma núgildandi laga.