139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:24]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að hér skuli vera aukið framlag til lækkunar húshitunarkostnaðar á köldum svæðum og að heildarframlagið skuli aukast um 180 millj. kr. Eins og hér hefur komið fram er húshitunarkostnaður á köldum svæðum mun hærri en á hitaveitusvæðum svo getur munað meira en helmingi þannig að þetta er spurning um að auka lífskjarajöfnuð í landinu. Hér hefði að sjálfsögðu mátt ganga lengra en eins og fleiri hafa sagt er þetta sannarlega skref í rétta átt og þar af leiðandi samþykki ég þetta. Þetta er dæmi um þau vinnubrögð sem maður vill sjá, þ.e. þegar menn taka gagnrýni og hlusta á rök og bregðast við þeim.