140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

fíkniefnaneysla ungmenna og forvarnir.

295. mál
[18:16]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi tölur frá Hagstofunni. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar að ég hef óskað eftir því að halda þessari talnasöfnun áfram. Ástæðan fyrir því að þeir hjá Hagstofunni voru með tillögur um að taka þetta út sem verkefni er hagræðingarkrafa á Hagstofuna en þetta er ekki lögbundið verkefni.

Við skulum átta okkur á því að eingöngu er verið að tala um að halda utan um heildarsölu og heildarmagn innflutts áfengis og hvernig það skiptist á tegundir, hver þróunin er, hve margra alkóhóllítra er neytt á Íslandi o.s.frv. Hins vegar eru kannanir sem snúa miklu meira að því hvernig ungmenni nota áfengi og fíkniefni. Sú könnun sem ég hef nefnt hér ítrekað frá Ráðgjöf og greiningu þar sem menntamálaráðuneytið hefur staðið að því að vinna árlegar kannanir. Það er fjármagnað af opinberum aðilum. Þar hefur verið hægt að fylgjast vel með þróuninni yfir langan tíma á því hvernig neysla hefur breyst.

Það verður að segjast eins og er og það er það jákvæða að neyslan hefur minnkað almennt, sérstaklega barna á grunnskólaaldri, og ástandið hvað varðar börn og unglinga er þrátt fyrir allt mun betra en það var fyrir nokkrum árum. Það þýðir ekki að við getum hallað okkur aftur og sagt að þetta sé í fínu lagi, langt í frá. Þetta er þannig að það kemur alltaf nýr og nýr hópur, það koma ný og ný verkefni og þess vegna er þetta eilífðarverkefni sem allir verða að standa þétt saman um.

Það hefur komið fram í rannsóknum á umliðnum árum að heildstæð nálgun á sviði forvarna hefur skilað mestum árangri. Er þá átt við að unnið sé á mörgum sviðum heilsueflingar og forvarna, svo sem til að styrkja sjálfsímynd, efla félagsfærni, auka hreyfingu og stuðla að hollu mataræði svo eitthvað sé nefnt. Það tengist allri þeirri umræðu sem við höfum átt í dag um heilsuþættina. Einnig hafa aðilar í nærsamfélagi ungmenna tekið höndum saman, t.d. foreldrar, skólar og frjáls félagasamtök. Það varð bylting þegar foreldrasamtök fóru að stunda svokallað foreldrarölt, fylgjast betur með á kvöldin, virða betur útivistartíma o.s.frv.

Á grundvelli slíkrar hugmyndafræði var haustið 2010 undirritað nýtt samkomulag um heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum, en slíkt samkomulag var fyrst gert árið 2007. Að samkomulaginu nú standa velferðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, embætti landlæknis, félög framhaldsskólanema, Félag íslenskra framhaldsskóla og ráðgjafarnefnd um æskulýðsrannsóknir. Meginmarkmið verkefnisins næstu þrjú árin, þ.e. frá 2010, er að skapa öflugt og samhæft þjónustuumhverfi fyrir nemendur á sem flestum sviðum sem snerta velferð þeirra. Í verkefninu starfa faghópar og fjallar einn þeirra um ávana- og fíkniefnaforvarnir. Í honum skulu sitja fulltrúar frá embætti landlæknis, umboðsmanni barna, ríkislögreglustjóra, Félagsráðagjafafélagi Íslands, SÁÁ, Hinu húsinu, lögreglunni í Reykjavík, FRÆ, sem er skammstöfun fyrir Fræðslu og forvarnir, Rannsóknarsetri í forvörnum við Háskólann á Akureyri og fleiri. Auðvitað væntum við mikils af þessu víðtæka samstarfi og samkomulaginu um heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum, oft nefnt HOFF–verkefnið, sem hefur farið afar vel af stað.

Auk þess eru á grundvelli sömu hugmyndafræði unnin ýmis verkefni á vegum embættis landlæknis sem fela í sér fræðslu um áfengi og ólögleg vímuefni, oft í samstarfi við skóla eða heilsugæslu. Meðal annars er um að ræða verkefnið sem ég nefndi áður og er kallað 6H heilsunnar sem vísar til hollustu, hreyfingar, hamingju, hugrekkis, hreinlætis, hvíldar og kynþroska. Þarna á sem sagt að taka heildstætt á málunum og nálgast verkefnið frá mörgum hliðum. Skólahjúkrunarfræðingar hafa umsjón með heilbrigðisfræðslu grunnskólabarna og verkefninu Heilsueflandi grunnskólar og Heilsueflandi framhaldsskólar þar sem skólar og nærsamfélög eru hvött til að móta sér stefnu og aðgerðir á sviði heilsueflingar og forvarna. Þarna er sem sagt verið að reyna að virkja samfélagið í heild í kringum skólana og hefur það skilað sýnilegum árangri á undanförnum árum. Við þurfum auðvitað að halda því vel áfram.

Eins og ég sagði áður er markmiðið að efla heilsu ungmenna almennt og draga úr áhættuhegðun, þar á meðal neyslu áfengis- og vímuefna. Þess má geta að þrátt fyrir að aðeins séu örfá ár síðan verkefnið Heilsueflandi framhaldsskólar hóf göngu sína hafa þegar skráð sig til þátttöku 31 af 32 framhaldsskólum í landinu. Sú reynsla sem hefur fengist lofar góðu eins og ég sagði og gegna nemendur sjálfir þar veigamiklu hlutverki.

Ljóst er að á vettvangi forvarna gegna félagasamtök einnig veigamiklu hlutverki. Þar eru öflug samtök eins og Foreldrahús, Vímulaus æska, SÁÁ, Samstarfsráð um forvarnir, Samhjálp o.s.frv. Öflugri herferð er t.d. nýlokið með samstarfsverkefninu Vika 43 eða vímuvarnaviku sem velferðarráðuneytið stóð vel að. Í gangi hefur verið (Forseti hringir.) landsverkefni sem kallast Bara gras? Það er því heilmikil vinna í gangi, umtalsverður árangur, en þetta er eilífðarviðfangsefni.