141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, það hvarflaði heldur ekki að mér þegar hin nýju lög voru sett varðandi framgang rammaáætlunar að þau mundu leiða til svo einhliða niðurstöðu. Það er alveg ljóst mál að þegar við skoðum umbúnað hæstv. ráðherra varðandi tillögugerð þeirra þá blasir við að hugmyndafræðin á bak við það sem hæstv. ráðherrar lögðu til var að fjölga í biðflokki. Í sjálfu sér má segja að sú hugmynd að ráðherrarnir hafi þarna einhvers konar stoppistöð fyrir málin áður en þau koma inn í þingið þurfi ekki að vera algalin. Öðru nær, það getur vel verið skynsamlegt að hæstv. ráðherrar hafi einmitt þennan möguleika til að yfirfara málin vegna þess að það geta komið upp tilvik eins og hafa komið upp og við þekkjum í aðdraganda þessa máls, t.d. að gögn misfarist fyrir mannleg mistök. Hefði ekki verið eðlilegt að gögnin yrðu sérstaklega rýnd þegar það lá fyrir að þau (Forseti hringir.) voru til staðar en höfðu ekki borist fyrir mannleg mistök? Þau hefði auðvitað þurft að leggja til grundvallar niðurstöðunni áður en hún var lögð fyrir Alþingi.