151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þróunarfélag Grundartanga bauð okkur í atvinnuveganefnd í heimsókn fyrir tveimur árum til að kynna starfsemi félagsins og fyrirtækja á svæðinu. Heimsóknin var mjög áhugaverð og fengum við kynningu á þróunarfélaginu og Elkem á Íslandi og skoðuðum verksmiðju Norðuráls. Ég hef ekki verið talsmaður frekari stóriðju í landinu en tel að við eigum að gera sem mest verðmæti úr þeirri vinnslu sem til staðar er og þróa umhverfisvænar lausnir í orkunýtingu og fullvinna sem mest hráefni á staðnum. Það kom því ánægjulega á óvart í þeirri heimsókn hve margt áhugavert var að gerast í umhverfisvænum lausnum og orkunýtingu hjá þessum félögum. Okkur voru kynnt fjölþætt verkefni sem snúa t.d. að nýtingu á umframorku eða glatorku, sem verður til við framleiðslu Elkem á kísilmálmi, og ýmis svokölluð græn verkefni sem voru þá í vinnslu og miðuðu flest að bættri nýtingu á orku og bindingu kolefnis. Gott dæmi er fyrirtækið Lífland, sem nýtir gufu til vinnslu fóðurs í verksmiðju sinni. Möguleg tækifæri eru fyrir ýmis sprotafyrirtæki til að nýta orkuna, svo sem í plastendurvinnslu, ylrækt, þörungaræktun, laxeldi á landi og hitaveituvæðingu á svæðinu. Þróunarfélag Grundartanga er félag sveitarfélaga á Vesturlandi, Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar. Það er því ánægjulegt að í kringum stóriðjuna eru að verða til fjölmörg umhverfisvæn verkefni sem ekki voru inni í myndinni hér áður fyrr, og nýsköpunarverkefni sem verða vonandi að veruleika eða eru þegar orðin að veruleika.