151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[13:45]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við höldum áfram að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög og fleira. Þar erum við aðallega að fjalla um viðurlög sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu að verði sett í lögin þar sem heimilt verður að leggja dagsektir á þau fyrirtæki sem ekki uppfylla lög um hlutfall kynja í stjórnum.

Þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni var ég að fjalla um dagsektirnar, aðallega um fjárhæð þeirra, þar sem ég benti á hversu háar þær væru, allt að 100.000 kr. á dag sem hægt væri að leggja á þessi félög sem sjá ekki til þess að hafa stjórnirnar skipaðar í réttu hlutfalli kynja. Ég benti á að sektin gæti numið 3 millj. kr. á mánuði. Hér er enginn afsláttur gefinn, herra forseti. Hefur meiri hluti hv. atvinnuveganefndar áttað sig á hvað við erum að tala um hér, hvers lags viðurlög þetta eru og hversu íþyngjandi þau geta verið? Meiri hluti nefndarinnar, sjö þingmenn úr öllum flokkum, meira að segja þrír hv. þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum skrifa undir nefndarálitið. Reyndar gerðu hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins það með fyrirvara.

Þingmenn Miðflokksins í hv. atvinnuveganefnd hafa verið að reyna að rétta kúrsinn í málinu vegna þess að í frumvarpinu er gengið út á ystu brún í því að skerða eignarrétt og sjálfsákvörðunarrétt manna sem eiga fé og eignir í félögum af einhverju tagi. Fólk í atvinnurekstri er leitt inn í þær aðstæður að það er ekki sjálfrátt. Menn eru ekki sjálfráðir um það hvern eða hverja þeir kjósa í stjórn félags sem þeir hafa lagt fé sitt og fyrirhöfn í. Þeir eru ekki sjálfráðir. Ríkið hlutast þar til um þegar fólk er þar með sína eign í félagi. Ríkið ætlast til þess að þessir eigendur kjósi aðila í stjórn í einhvers konar hlutfalli við kyn. Þarna er verið að ganga á eignarrétt manna í þessum fyrirtækjum. Þeir eru ekki sjálfráðir. Vafalítið er hér gengið mjög nærri eignarréttinum að mínu mati. Við erum að ræða um þvingun. Við erum ekki að tala um tilmæli stjórnvalda. Við erum að tala um þvingun stjórnvalda og það er þvingað fram með beitingu sekta. Stjórnvöldum sem hafa eftirlit með þessum félögum er veitt vald til að þvinga þetta fram með því að leggja háar dagsektir á félögin.

Lítum örlítið betur á þá heimild til að leggja á dagsektir. Í frumvarpinu er ekkert ákvæði um að kæra til æðra stjórnvalds fresti réttaráhrifum ef ákveðið er að leggja á dagsektir. Það frestar ekki þessari ákvörðun, sem hefði verið ofureðlilegt þegar horft er til hagsmunanna sem þarna eru undir og samspilið við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Hér verður því að líta til hinnar almennu reglu stjórnsýslulaganna um að kæra fresti ekki réttaráhrifum. Þetta er ekki eðlilegt, herra forseti, alls ekki eðlilegt. Datt nefndinni þetta ekki í hug eða lá svo mikið á að drífa þetta draumaverkefni áfram, að hvorki var litið til hægri né vinstri? Og hvað með aðfararheimildina? Þarna er stjórnvöldum heimilað að fara beint í aðför. Þarna er inni svokölluð bein aðfararheimild. Stjórnvöldum er meira að segja gefið þetta eftirsótta hagræði sem alla lánardrottna dreymir um að hafa, að geta farið beint í aðför á skuldarann. Þau þurfa ekki að leita neitt lengra en að fara beint og tryggja kröfu sína í eigum félagsins. Kæra frestar þessum aðgerðum ekki neitt. (Forseti hringir.) Kom það virkilega ekki til tals í nefndinni að ef til vill væri fullmikið í lagt að afhenda (Forseti hringir.) stjórnvaldinu í þessu sérstaka tilviki beina aðfararheimild? Kom það ekki til tals, herra forseti?