135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

133. mál
[18:59]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir orð hans í umræðuna og þann stuðning sem hann lýsir hér yfir við frumvarpið. Ég tek eftir því að hann vill jafnvel ganga lengra en flutningsmenn og ég gat þess raunar í framsöguræðu minni að við hefðum aðeins rætt hvort við ættum jafnvel að ganga lengra en hér er lagt til. Niðurstaðan varð að hafa þetta með þessum hætti. En mér finnst fullkomlega eðlilegt að þau viðhorf sem koma fram hjá hv. 6. þm. Reykv. n. Pétri H. Blöndal séu tekin til umfjöllunar á vettvangi nefndarinnar sem málið fær.

Mér finnst reyndar sjálfsagt líka að nefndin skoði þær hugleiðingar sem ég var með og hann hefur líka tekið undir, að málefnið, kosningar til sveitarstjórna, flytjist milli ráðuneyta. Það væri einföld lagabreyting, tillaga af hálfu nefndarinnar, ef um það væri samstaða þar. Mér finnst því sjálfsagt að það komist til skila til nefndarinnar og hún fjalli um það líka.

Að öðru leyti þakka ég fyrir þau viðbrögð sem ég hef fengið við frumvarpinu þótt ekki margir hafi tekið til máls þá voru viðbrögðin jákvæð og ég vonast til þess að frumvarpið fái jafngóðar undirtektir í nefndinni þegar hún fjallar um það.