139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:14]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir ábendinguna og spurninguna. Þó að ég sé ef til vill ekki með endanlegt eða rétt svar við henni þá tel ég að í álitinu megi leiða líkur að því eða draga þær ályktanir að í umfjöllun okkar í félags- og tryggingamálanefnd eftir áramót um réttindagæslu, og í frumvarpi um réttindagæslu sem von er á frá hæstv. ráðherra, getum við tekið þetta til umfjöllunar og gætt sérstaklega að réttindum þeirra einstaklinga sem búa við heyrnarleysi og aðra fötlun að auki og þurfa að nýta sér þjónustu táknmálstúlka.

Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, þetta var ekki rætt sérstaklega í nefndinni en ábendingin er þörf og góð. Ég hygg að okkur ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að ræða hana ásamt öðru í umfjöllun um frumvarp um réttindagæslu og svo í framhaldinu þær vörður sem við ætlum að stikla á í átt til heildarendurskoðunar og bættrar löggjafar á þessu sviði.