151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mjög feginn því að þetta sé nefnt af virðulegum forseta sem eitthvað til að stæra sig af því að það er mjög mikilvægt. Og það er alveg rétt sem forseti segir að ýmislegt hefur verið gert til að auka fyrirsjáanleika. Það sem ég myndi kannski gagnrýna er að mér finnst vanta — ég veit að þetta hlýtur að móðga fólk sem hefur verið hér á Alþingi mjög lengi og ég biðst bara forláts á því — að hugsað sé stórt þegar kemur að fyrirsjáanleikanum. Ég átta mig alveg á því að það er heljarinnar áskorun að ætla að breyta því hvernig gangverk Alþingis virkar, ekki bara vegna þess að verklagið er nú þegar mjög fast í sessi heldur líka vegna þess að slíkar breytingar eiga sér stað í því átakaumhverfi sem Alþingi er eðli sínu samkvæmt. Ég ber alveg virðingu fyrir því að það sé erfitt. En þótt ég get þakkað fyrir að núna sé vissulega meiri fyrirsjáanleiki — talinn í degi eða dögum eða að eitthvað sé ákveðið fyrir helgi sem áður var ákveðið bara á mánudeginum sjálfum, mig minnir að þannig hafi það verið hér á þarsíðasta kjörtímabili — og það sé rétt hjá virðulegum forseta að þetta sé að skána, þá sé ég bara fyrir mér að það gæti batnað svo miklu meira ef við myndum hugsa það þannig, ef við myndum einsetja okkur það. Ég velti fyrir mér hversu raunveruleikafirrt það hljómar fyrir fólk sem hefur verið lengi hér á Alþingi að geta spáð fyrir um það að á ákveðnum degi eftir þrjá eða fjóra mánuði verði tiltekið mál á dagskrá. Reynsla mín hér á Alþingi segir mér að það sé, liggur við, raunveruleikafirrt. En tilfinningin úti í samfélaginu er að það sé mögulegt. Ég held að það sé heljarinnar verk að komast á þann stað. Það þyrfti t.d. að byrja á því að útkljá þetta með ræðutímann, bara sem dæmi, og fleira í þeim dúr.

Ég þakka fyrir og viðurkenni viðleitnina sem virðulegur forseti talar um. (Forseti hringir.) Það er allt satt og rétt sem hann segir. Ég vil hugsa lengra og stærra og meira. Ég tel að við getum gert svo mikið (Forseti hringir.) ef við bara leyfum okkur það og festumst ekki í því hvernig þetta hefur verið í gegnum tíðina.