145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða og málefnalega ræðu. Mér finnst gott að skiptast á skoðunum við hv. þingmann sem hefur verið, alla vega í þau skipti sem ég hef átt samskipti við hann í ræðustól, mjög málefnalegur. Ég gat hins vegar ekki skoðað þær tölur varðandi Landspítalann á þeim tveim sekúndum sem liðu frá því hann kláraði og ég fékk orðið. Við getum kannski talað sérstaklega um framlög til heilbrigðismála. Það er stórt mál. Flest af því sem hann nefndi var mjög stórt.

Ég vil aðeins nefna eftirlitsstofnanirnar. Það sem við erum að reyna að draga fram hér er að það hafi ekki verið tekin nein pólitísk ákvörðun um að leggja svo mikið í eftirlitið. Við getum til samanburðar talað um heilbrigðiskerfið. Á síðasta kjörtímabili var mjög bætt í eftirlitsiðnaðinn en dregið mjög saman í heilbrigðiskerfinu, bara svo dæmi sé tekið. Ég veit ekki til þess að neinn hafi tekið pólitíska ákvörðun um það. Eðli málsins samkvæmt vilja allir fá meiri fjármuni til sín, allar stofnanir o.s.frv. En hins vegar verðum við að hafa einhverja yfirsýn yfir það því að við erum að skipta peningum. Eftirlit er mjög mikilvægt á mörgum sviðum. Sums staðar þarf þess ekki. Þetta var allt í lagi þegar útvarpsréttarnefnd var hérna. Fjölmiðlanefnd hefur ekkert alvöruhlutverk að mínu áliti.

Hv. þingmaður nefndi stór mál, til dæmis fjölgun aldraðra. Það er það sem við ættum að ræða. Þjóðfélag okkar er að breytast verulega út af fjölgun aldraðra. Ég er sammála honum að við erum ekki að undirbyggja okkur eins og við ættum að gera, meðal annars vegna þess að við erum að ræða allt aðra hluti. Við erum ekki að ræða stóru myndina. Ég sé fram á að mikil vandamál verða og þau gerast mjög hratt vegna þess að við erum ekki með úrræði fyrir aldraða. Það tengist meðal annars heilbrigðiskerfinu, kannski helst því.

Síðan skal ég reyna að fara í hina þættina, ég næ ekki að fara í allt saman núna. Varðandi (Forseti hringir.) — ég vissi að hljómurinn kæmi, ég hélt ég mundi sleppa.