148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands o.fl.

468. mál
[22:48]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski bara klaufaskapur að geta þess ekki í frumvarpinu að haft var samráð við Persónuvernd við vinnslu þessa máls frá því það var unnið í fyrra og gerðar á því einhverjar breytingar. Ég er ekki viss um að þær hafi komið hundrað prósent til móts við þau sjónarmið sem Persónuvernd hafði en ástæðan fyrir því að sérstaklega er kveðið á um aðila vinnumarkaðar er sú að stóru meginlínur frumvarpsins og helstu efnisatriði þess eru atriði sem þeir aðilar voru aðallega að koma sér saman um. Þess vegna er kannski meira getið um það í frumvarpinu og ég gerði það líka í ræðu minni. Það eru aðilarnir sem hafa verið að takast á um efnisþætti frumvarpsins og hvernig þeir skuli settir fram.

Ég vænti þess að Persónuvernd verði að öllum líkindum jákvæðari fyrir þessu máli en hún varð síðast. Ef ekki þá hvet ég velferðarnefnd til að skoða það sérstaklega. Ég veit ekki betur en að við þær breytingar á efnisatriðum frumvarpsins sem gerðar eru núna og við þær breytingar sem gerðar voru á því á milli ára hafi verið haft samráð við Persónuvernd.