150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

áfengislög.

48. mál
[17:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, mér finnst það frumvarp sem hér liggur frammi mjög áhugavert og ég efast ekki um að ég muni styðja það. Í raun lít ég næstum því svo á að svona lagað sé einhvers konar tiltekt í lagabálki. Við vitum að hér eru seld tæki og tól til heimabruggunar og hér eru, eins og hv. þingmaður kom inn á, samtök sem fara út í slíkt. En af einhverjum skringilegum ástæðum, að mínu mati, er það enn óheimilt samkvæmt lögum. Mér líst einkar vel á að hv. þingmaður sé að hreyfa við þessu máli og vona svo sannarlega að það hljóti brautargengi.

Í ræðunni um þetta ágæta frumvarp og fleiri mál, og jafnvel líka í ræðu undir störfum þingsins, kallaði hv. þingmaður eftir frjálslyndum Sjálfstæðismönnum og Sjálfstæðismönnum sem gjarnan tala fyrir frelsi og það gerir Sjálfstæðisflokkurinn vissulega. Ég tek reyndar eftir því að þetta ágæta frumvarp, sem áður hefur verið lagt fram, hefur verið með meðflutningsmenn úr Sjálfstæðisflokknum. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason hefur einhvern tímann verið á þessu frumvarpi og líka núverandi hæstv. dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þannig að ég ímynda mér að góður stuðningur sé við þetta ágæta mál í því ráðuneyti.

Annars langar mig að segja það, virðulegur forseti, að hér eru oft lögð fram mjög góð mál af öllum toga frá stjórnmálamönnum í öllum flokkum. En ég hef samt sem áður ákveðið það sjálf sem þingmaður að vera ekki að skrifa mig á öll mál sem meðflutningsmaður. Það er til að mynda, virðulegur forseti, mín persónulega regla að ég bregst almennt ekki við tölvupóstum sem stundum hrúgast yfir þingmenn þar sem óskað er eftir meðflutningi. En hafi hv. þingmenn samband við mig persónulega og óski eftir meðflutningi í ákveðnum málum tek ég það glöð til umhugsunar og móta mér afstöðu til þess. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé tekið fram hér að það að einhver sé ekki meðflutningsmaður á máli hefur ekkert að gera með það hvort hann styðji málið eða hvort málið sé gott eða ekki í hans huga. Ég held að það færi illa á því ef hér væru mörg mál lögð fram með meira en 50 flutningsmönnum.

Það mál sem hér um ræðir er vissulega hægt að flokka sem frelsismál en kannski ekki síður sem ákveðna lagatiltekt. Ég styð heils hugar það sem hér er lagt til.