154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

vopnalög.

349. mál
[13:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er mikilvægt frumvarp um breytingu á vopnalögum sem er ætlað að stemma stigu við óhóflega miklum innflutningi á sjálfvirkum og hálfsjálfvirkum vopnum. Við höfum fjallað um þetta ítarlega og lengi í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og fengið fjölda umsagna og gesta. Við vorum með breytingartillögur við frumvarpið en í ljósi þess að ein af þeim breytingartillögum olli ákveðnum vandkvæðum hér inni og fólk vildi kynna sér málið betur og fá kannski víðari sýn á það, þá höfum við samþykkt að vísa málinu milli umræðna inn í allsherjar- og menntamálanefnd. Allsherjar- og menntamálanefnd mun í janúar taka málið aftur til umfjöllunar og fá gesti þannig að við föllum núna frá öllum breytingartillögum, jafnvel þeim sem voru bara mjög tæknilegar og við munum áfram standa við, til að reyna að einfalda atkvæðagreiðslur og greiða fyrir þinglokum.