145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Eins og ég sagði í ræðunni er mér þetta ráðgáta. Ég skil ekki alveg þetta kæruleysi. Ég get ekki kallað þetta annað en það. Þetta er kæruleysi. Mér finnst kæruleysi að leggja beinlínis lykkju á leið sína til að hætta við fjárfestingaráætlun sem hér hafði verið samþykkt. Það var ekki verið að breyta henni, breyta áherslunum eða eitthvað slíkt, það var bara hætt við hana, t.d. hætt við þær fjárfestingar í innviðum ferðaþjónustu sem var augljóst að þyrfti að ráðast í. Hvaða leikur er þetta? Er þetta kannski birtingarmynd af mjög slæmri pólitík, kannski pólitík frá 1916 þegar menn sögðu: Ef við gerum þetta erum það við sem ákveðum það? Er þetta eitthvað svoleiðis? Við ætlum ekki að gera neitt sem síðasta ríkisstjórn ákvað. Við ætlum frekar að gera þetta með því að pota þessu inn í fjáraukalög.

Ég veit ekki alveg hvað er í gangi. Svo held ég að þetta sé líka (Forseti hringir.) ákveðinn slugsaháttur eins og þegar kemur að því að geta ekki lagt fram samgönguáætlun þegar það er augljóst að það er eitt stærsta viðfangsefnið sem blasir við.