151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Fyrir mér er ákvæðið mjög skýrt. Ákvæðið segir skýrlega: „Náttúruauðlindir og landsréttindi“ — og ég vek athygli á því að landsréttindi hafa ekki alltaf verið undir, þetta er mjög mikilvægt atriði þegar við lesum söguna — „sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota.“ Hvað merkja þessi varanlegu afnot? Jú, það er skýrt í greinargerð. Það þýðir að þau eru tímabundin, nú eða afturkallanleg eða uppsegjanleg eins og ég fór yfir í minni ræðu. Þetta er minn skýri skilningur á þessu ákvæði. Hefur þingið heimild til að breyta? spyr hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Nú fer málið að lokinni þessari umræðu til þinglegrar meðferðar og ég hef væntingar til þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd muni fara yfir það í mikilli alvöru því að ég hef þá trú að þingleg meðferð geti oft orðið til þess að gera mál betri. En fyrir mér persónulega er þessi texti algerlega skýr.