151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið og ætla að vísa til þess sem hæstv. ráðherra sagði áður en hún varð forsætisráðherra, að við ættum að taka auðlindagjald sem greinin bæri með sér að hún hefði efni á að greiða. Það sem ég er að velta fyrir mér núna er með einfalda lagaáskilnaðarreglu í stjórnarskrá og þá kemur núna þessi spurning: Getur hæstv. forsætisráðherra svarað því hvað það þýðir í raun og veru að tala um sanngjarnt, eðlilegt gjald í ábataskyni sem hver ríkisstjórn fyrir sig getur ákveðið? Er það ekki einfaldlega geðþótti? Felur það ekki í sér geðþóttaákvörðun sem á ekkert skylt við það að tryggja fullt verð fyrir aðgang, ekki bara að sjávarauðlindinni, sem við vitum náttúrlega öll að liggur hér undir, við vitum það öll, alveg sama hvað sagt er, heldur að öllum öðrum auðlindum sem við eigum sameiginlega?