135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

hús Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á Seyðisfirði.

328. mál
[14:47]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á húsnæði ÁTVR á Seyðisfirði og eins fyrir svör hæstv. ráðherra. En ég harma að ÁTVR sýni ekki meiri metnað í vali á nýjum útsölustöðum eða standi betur vörð um góða staðsetningu útsölustaða vítt og breitt um landið. Það hefur borið á því á undanförnum árum að það er verið að flytja útsölustaði ÁTVR út um land inn í óskylda starfsemi, meðal annars bensínstöðvar, eins og var gert á Seyðisfirði.

Húsið á Seyðisfirði hefur því miður orðið að láta undan hvað varðar breikkun götunnar og þar eru ónóg bílastæði svo það var í sjálfu sér fyrirsjáanlegt að það þyrfti að gera einhverjar breytingar. En ÁTVR hefur bæði fjármagn og ætti að hafa metnað og vilja til þess að standa vörð um þetta merkilega hús. Ef ÁTVR hefur ekki fjármagn til að láta flytja húsið samkvæmt skipulagstillögum og efla þannig aldamótabæinn Seyðisfjörð og halda útsölunni áfram í (Forseti hringir.) þessu gamla húsi, hver hefur það þá?