137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

165. mál
[15:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að vera langorður um þetta mál. Málið er flutt af hv. efnahags- og skattanefnd og er leiðrétting á lögum sem voru samþykkt héðan frá Alþingi fyrir ekki margt löngu. Í umræðu um þau lög spurðist ég fyrir um ákveðinn tollskrárflokk og fékk ekki svör við því en ég ætla að upplýsa Alþingi um að þar er um að ræða áfengislaus efni, vatnssneydda kjarna, en af þeim vöruflokki skal greiða 800 kr. á kg. Þessi leiðrétting er náttúrlega með ólíkindum. Í fyrsta lagi var meiningin sú að leggja skatta á sykurvörur og var ákveðið að hækka virðisaukaskatt á þeim vörum úr 7% upp í 24,5%. Milli 2. og 3. umr. tók meiri hluti hv. efnahags- og skattanefndar sig til ákvað að hverfa frá þessu yfir í eitthvað allt annað sem var hækkun á vörugjöldum á sykurvörum. Það var afgreitt á kortersfundi í færeyska herberginu við mótmæli minni hlutans.

Við það urðu nokkur mistök og helst þau að kaffi og te fengu á sig vörugjöld. Hér er verið að leiðrétta það. Svo eru einhver númer sem ekki voru til í tollskránni og áttu allt í einu að fá skatt á sig. Það gengur náttúrlega ekki upp þannig að það er líka verið að leiðrétta það hér. Svo var hjúpaður og húðaður lakkrís, hnetur, konfekt, sætakex og fleira ekki í lögunum fyrir mistök og er komið með þau inn hér. Svo var eitthvað sem ég á erfitt með að skilja, með leyfi forseta:

„Vörur sem bera númerin […] voru í 4. gr. laganna í þeim tilgangi að varna því að álagning vörugjalda á hjólbarða og skyldar vörur félli niður við breytingar sem þar voru ráðgerðar og tóku að meginstefnu til tilgreindra matvæla.“

Þarna eru sem sagt allt í einu komnir einhverjir hjólbarðar og slíkar vörur inn í þetta.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu eiga þessar breytingar ekki að hafa í för með sér aukin vörugjöld á hjólbarða og skyldar vörur frá því sem var fyrir gildistöku laganna um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Það sem ég er að fara fram á, frú forseti, er að menn vandi sig dálítið betur. Það gengur ekki að Alþingi geri kerfisbreytingar á kortersfundi í efnahags- og skattanefnd og geri þvílík mistök að það þurfi að leiðrétta það sex vikum seinna. Ég minni á að í þeirri hv. nefnd sem nú er verið að ræða mál nr. 166, um kyrrsetningu eigna, sem átti líka að vera mjög gott og gilt til að ná í — greinargerðin með því frumvarpi er reyndar með ólíkindum. En þar virðast líka vera gerð mistök því að á fund nefndarinnar í morgun kom Ragnar Aðalsteinsson og gat þess að frumvarpið gæti verið mikil ógnun við mannréttindi vegna þess að þeir sem fyrir því lenda að eignir þeirra eru kyrrsettar hafa ekki tæki til að bregðast við og verjast því að eignir þeirra séu kyrrsettar. Skattrannsóknarstjóri beinir því til tollstjóra að hann beini því til sýslumanns að kyrrsetja eignir. Sá sem verður fyrir því að eignir hans eru kyrrsettar hefur ekki úrræði til að bregðast við. Það er náttúrlega mjög alvarlegt mál þegar mál sem ætlað er að ná til útrásarvíkinga í gegnum skattkerfið en hefur þessar afleiðingar.

Eins og menn átta sig á er tekjuskattsleiðin afskaplega hægvirk þegar kemur að því að ná til útrásarvíkinganna vegna þess að menn telja fram, sérstaklega fyrirtæki. Fyrirtækin verða búin að telja fram einhvern tíma um næstu áramót vegna atburða sem urðu í hruninu. Síðan fer það í sinn feril þannig að þetta er afskaplega hægvirk aðferð til að ná í þessa aðila. Það var á skattstjóranum að heyra sem kom fyrir nefndina á föstudaginn að þetta mundi aðallega gagnast í fíkniefnamálum og er það svo sem ágætt, ég hef enga samúð með þeim málum. En það er engan veginn ætlað til að ná í útrásarvíkingana og ég held að nefndir þingsins ættu að hugleiða aðrar aðferðir til að ná í þær háu upphæðir.