151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Ég tel að sú leið sem hér er farin við að reyna að ná fram breytingum á stjórnarskrá feli í sér varasamt fordæmi og geti orðið til þess að stjórnarskrá til langrar framtíðar verði fórnarlamb pólitískra deilna hversdagsins. Það að lagðar séu fram breytingar á stjórnarskrá sem þingmannamál er til þess fallið að auka líkurnar á að menn sjái fyrir sér til framtíðar að það sé leiðin til að ná fram breytingum á stjórnarskrá og færi inn í þennan sal, þar sem oft ríkja átök um umdeild mál, hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni og þá væntanlega einnig í kosningabaráttu. Ef við hverfum frá markmiðinu, sem mér heyrðist hæstv. forsætisráðherra telja orðið nokkuð gamaldags, um sem mesta samstöðu um stjórnarskrárbreytingar er ekki aðeins verið að skaða stjórnarskrána með því að gera hana að pólitísku þrætumáli heldur einnig að draga úr því gildi sem stjórnarskrá þarf að hafa og hefur haft og er hugsuð sem, þ.e. plagg sem allir meira og minna sætta sig við og geta sameinast um að séu grundvallarreglur samfélagsins.

Ég læt þetta nægja af athugasemdum mínum um aðferðina í bili en geri þó ráð fyrir að ræða það aðeins síðar í þessari umræðu. Ég ætla núna að snúa mér að einstaka tillögum að nýjum greinum en þó einkum tveimur þeirra. Ég er mjög sáttur við og tel það einfaldlega jákvætt að bætt verði inn í stjórnarskrána ákvæði um íslenska tungu og íslenskt táknmál, ég þarf ekki að verja miklum tíma í umræðu um það. Ég geri þá í leiðinni athugasemd við það að ríkisstjórnin sé að mínu mati þegar byrjuð að brjóta þetta ákvæði áður en það hefur verið innleitt með áformum um að rústa íslenskri mannanafnahefð. En það er umræða fyrir síðari tíma og er vonandi ekki til marks um það sem koma skal með þann alvarleika sem þarf að leggja í stjórnarskrá, ákvæði hennar, greinar og breytingar þar á.

Hvað varðar forsetakaflann, sem svo er kallaður, eða greinar sem lúta að hlutverki forseta ætla ég líka að bíða með umræðuna að mestu leyti. Þetta er atriði sem var tiltölulega vanreifað eða lítið rætt í undirbúningsvinnunni og eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti á áðan þá bætast auk þess við nýir hlutir sem birtust eiginlega tiltölulega óvænt. Í þessum kafla eru atriði sem geta virst smáatriði við fyrstu sýn en geta engu að síður haft mjög veruleg áhrif. Sú umræða bíður hins vegar þar til síðar því að nú þarf ég að nota tíma minn til að fjalla annars vegar um það sem kallað er ákvæði um náttúruvernd og hins vegar um auðlindir.

Þessi ákvæði bera það með sér að margar setningar hljóma meira eins og markmið úr stefnuskrá stjórnmálaflokks heldur en skýrar greinar í stjórnarskrá, útlistun á skýrum grundvallarreglum um það hvernig hlutirnir skuli ganga fyrir sig, hvað sé leyfilegt og hvað ekki, hvar réttur og skyldur liggja. Ég var þó tilbúinn að sætta mig við einhverjar slíkar setningar til skrauts í viðleitni minni til að vinna að sátt og samstöðu um þetta mál í þeirri vinnu sem stóð, eins og rakið hefur verið, árum saman. En það hefði verið háð því að skýrt lægi fyrir og menn áttuðu sig á og gerð væri grein fyrir því hver áhrifin af þessu yrðu, hver raunveruleg áhrif af svona fallegum frösum yrðu á lagaumhverfið og stjórnskipan landsins. Það liggur hins vegar ekki fyrir, a.m.k. alls ekki nógu vel. Þar af leiðandi eru báðar þessar greinar sem ég gat um hér, náttúruverndargreinin og auðlindagreinin, til þess fallnar að auka á óvissu fremur en að draga úr henni. En hlutverk stjórnarskrár hlýtur að vera að skýra grundvallarreglurnar og draga úr óvissu varðandi aðra lagasetningu og stjórn landsins. Hér er hins vegar verið að setja inn vanreifaðar setningar sem allt of mikil óvissa ríkir um hvaða raunverulegu áhrif muni hafa.

Lítum á tillöguna að 79. gr., en hún hefst svo: „Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu.“ Þetta eru tiltölulega augljós sannindi og kannski óþarfi að taka það fram í stjórnarskrá. En gott og vel, það er allt í lagi að byrja grein á svona yfirlýsingu. Næst kemur: „Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum …“ Hér veltir maður fyrir sér hvaða ábyrgð er verið að setja á herðar almenningi í landinu. Auðvitað gilda almenn lög um að það eigi að fara vel með náttúruna, kveðið er á um það í ýmsum lögum og á ýmsan hátt. En hvaða nýja stjórnarskrárbundna ábyrgð er að bætast á allan almenning hvað þetta varðar? Við fáum kannski smávísbendingu um það í greinargerðinni en til að fara skipulega yfir þetta þá ætla ég að bíða með það og klára fyrst að rekja mig í gegnum texta greinarinnar sjálfrar. „Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.“ Önnur falleg setning, almenn skynsemi sem ég geri ráð fyrir að flestir eða allir geti tekið undir. En hver verða raunveruleg áhrifin? Ég kem aðeins inn á það á eftir hver þau gætu orðið. Enn ein svona setning fylgir í kjölfarið: „Allir eiga rétt til heilnæms umhverfis.“ Ég tel að það sé erfitt að finna þann Íslending sem ekki er þeirrar skoðunar að allir eigi að eiga rétt til heilnæms umhverfis. En hvaða áhrif hefur þetta? Nú tek ég smáforskot á sæluna áður en ég fer í greinargerðina hér á eftir því að þar er þetta ákvæði til að mynda notað til að rökstyðja það að ekki megi losa gróðurhúsalofttegundir vegna þess að það megi ekki hafa áhrif á loftslagið. Auðvitað er það gott markmið að draga sem mest úr losun gróðurhúsalofttegunda. En hvar á að draga mörkin? Allar framkvæmdir losa gróðurhúsalofttegundir. Er þá hægt að nýta þetta ákvæði til þess að hindra framkvæmdir? Allt athæfi mannanna losar gróðurhúsalofttegundir. En þarna er sérstaklega tekið fram, þessi setning er sérstaklega sett í samhengi við það að ekki megi hafa áhrif á loftslagið. Þetta er svo sett í samhengi við annað sem fylgir á eftir.

Áður en ég kem aftur að heilnæma umhverfinu er hér sagt um heimild almennings til að fara um landið að ganga skuli vel um náttúruna. Önnur almenn og góð sannindi sem ég held að flestir læri bæði heima hjá sér og í fyrstu árgöngum skóla eða leikskóla. „Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa.“ Hér segir ekki að virða rétt eða réttindi landeiganda heldur virða hagsmuni þeirra. Á hvaða hátt eiga menn sérstaklega að taka tillit til hagsmuna þessara aðila fremur en réttinda þeirra? Þetta opnar á miklu víðari túlkun en þörf er á. Þessari grein lýkur svo á orðunum: „Í lögum skal mælt fyrir um rétt almennings til upplýsinga um umhverfið og áhrif framkvæmda á það svo og til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið.“ Rétt til upplýsinga og rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfið. Hvaða framkvæmdir hafa ekki áhrif á umhverfið, herra forseti? Hér er verið að leggja það til að allar framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið skuli leggja í mat alls almennings, a.m.k. á Íslandi, en svo má reyndar með samhenginu við Árósasamninginn álykta sem svo að allir eigi meira og minna, hvar sem þeir búa, a.m.k. í Evrópu, rétt á að leggja mat á allar þær framkvæmdir sem fram fara á Íslandi. Við þekkjum auðvitað dæmi um það þar sem erlendir þrýstihópar hafa safnað undirskriftum og hvatt sína menn á netinu og annars staðar til þess að senda erindi til Íslands í krafti þessa réttar til að hafa áhrif á framkvæmdir hér. Með þessu er verið að setja slíkan rétt í stjórnarskrá og útvíkka.

Það er líka margt óljóst um hugtakið „sjálfbæra þróun“ sem getið er um ofarlega í þessari grein. Ætli það sé ekki rétt, herra forseti, að ég lesi þá setningu alla: „Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“ Þetta hugtak kom nokkuð til umræðu í undirbúningsvinnunni eða í samráði formannanna og var breytt eftir að bent var á að orðalagið eins og það var, að þetta ætti að gerast á sjálfbæran hátt, ef ég man rétt, gæfi mjög óljós fyrirmæli. Þetta lítillega breytta orðalag, að þetta skuli gera með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, kemur sannarlega ekki í veg fyrir álitaefni, öðru nær. Sjálfbærni er ekki möguleg í öllum mannanna verkum, til að mynda í námuvinnslu, námuvinnsla er ekki sjálfbær eðli máls samkvæmt. En með því að segja „með sjálfbærni að leiðarljósi“ ætla menn sér hugsanlega að segja sem svo að þar sem hægt er að viðhafa sjálfbærni þá skuli það eiga við. En svo sjáum við betur síðar hver hugsunin er á bak við það orðalag að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það er í rauninni sú hugsun að innleiða ákveðna hugmyndafræði í stjórnarskrána. Þar er sjálfbær þróun skilgreind sem ákveðin hugmyndafræði sem skuli verða stjórnarskrárbundin á Íslandi og fyrir vikið verða áhrifin afskaplega óljós og ekki gerð nein veruleg tilraun til að útskýra það hver áhrifin í raunheimum yrðu.

Þá að tillögu að 80. gr. stjórnarskrárinnar. Hún hefst svo: „Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Þær skal nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta landsmönnum öllum.“ Aftur þetta orð nema nú er kveðið heldur skýrar að orði, þær skal nýta á sjálfbæran hátt. Aftur veltir maður því fyrir sér hvernig hægt sé til að mynda að nýta námu á sjálfbæran hátt. Svo segir: „Ríkið hefur eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna.“ Stóra spurningin í þessu ákvæði, sem er eins og töluvert hefur verið rætt auðvitað að miklu leyti sprottin úr áratuga langri umræðu um sjávarútvegsmál og fiskveiðistjórnarkerfið, er hvernig náttúruauðlindir eru skilgreindar. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að hún vildi hafa þá skilgreiningu opna en um leið væri hægt að bæta stöðugt atriðum í löggjöfina, skilgreina fleiri og fleiri hluti sem náttúruauðlindir. Það fylgir reyndar listi yfir tilteknar tegundir auðlinda. En auðlindir eru býsna fjölbreytilegt fyrirbæri. Berjalyng er auðlind, berjamói er auðlind þess sem á landið. Væri þá hægt að leiða í lög að berjalyng félli undir þetta? Umræðan í formannahópnum náði reyndar það langt í samtölum við sérfræðinga að því var velt upp, án þess að skýr svör fengjust við því, hvort t.d. vindurinn, jafnvel sólin, sólskinið, væri auðlind. Menn treystu sér sumir hverjir ekki til að svara því neitandi. Þá var bent á að ríkið gæti með þessu haft stjórnarskrárbundinn rétt til að taka auðlindagjald af notkun loftsins. Á meðan þetta er eins óljóst og það er og einkennist auk þess af þessum fallegu frösum fremur en skýrum reglum, er ómögulegt að segja til um hvert þetta leiðir. En með þessu er alls ekki óhugsandi heldur beinlínis gefið til kynna að það verði búinn til stjórnarskrárbundinn réttur til að svipta menn eignarrétti. Eignarréttur var nú áður talinn ein af helstu stoðum stjórnarskrár, ekki bara á Íslandi heldur annars staðar. En hér er verið að setja inn í stjórnarskrá þann möguleika að svipta menn eignarrétti. Nú er rétt að taka fram að ég er ekki að tala um sjávarútveginn eða fiskveiðiauðlindina en hugurinn hjá mörgum þingmönnum virðist iðulega fara í þá átt þegar þetta ákvæði er rætt. Ég er að tala um þá hluti sem nú heyra undir eðlilegan eignarrétt, að verið sé að opna fyrir það að setja þá hluti undir þessa skilgreiningu sem heimilar að svipta menn þeim rétti.

Loks segir í þessari grein:

„Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“

Þá spyr maður aftur: Hversu víðtækt á það að vera, hversu margir eiga nú að fara að greiða fyrir eitthvað sem þeir áttu í raun áður eða áttu a.m.k. rétt á? Og þá er áhugavert að freistast til þess að setja þetta strax í samhengi við greinargerðina því að það er ekki hægt að túlka hana öðruvísi en svo að beitarréttur á þjóðlendum til að mynda væri núna gjaldskyldur. Ríkið færi að rukka bændur fyrir það ef sauðfé þeirra færi yfir einhver mörk inn á ríkislandið. Þetta eru því ákvæði sem flækja réttindi og skyldur í stað þess að skýra réttindi og skyldur eins og stjórnarskrá á að gera.

Þá að greinargerðinni og aftur að náttúruverndarákvæðinu. Þar segir um gildi náttúrunnar: „Leggja ber til grundvallar að náttúran hafi eigið gildi jafnframt því að hafa efnahagslegt og samfélagslegt gildi fyrir núlifandi og komandi kynslóðir.“ Hvað þýðir það, herra forseti, að náttúran hafi eigið gildi? Hún hefur auðvitað gildi fyrir okkur mannfólkið, fyrir dýrin sem lifa í náttúrunni, hún hefur vissulega efnahagslegt gildi, eins og getið er um hér, en einnig gildi sem felst í t.d. fallegu umhverfi. En hvað þýðir að náttúran hafi eigið gildi? Það er ekki skýrt en ekki er hægt annað en að setja það í samhengi við þá þróun sem hefur orðið vart í umræðu í nútímastjórnmálum að maðurinn eigi að líta á náttúruna nánast eins og lifandi veru ef ekki guðlega veru. Náttúran hefur að sjálfsögðu gildi fyrir okkur á fjölbreytilegan hátt og það er mikilvægt fyrir okkur þess vegna að fara vel með hana og vernda hana. En hvað þýðir það að náttúran hafi eigið gildi? Er þetta ef til vill bara ein af þessum aukasetningum sem einkenna þessa vinnu um of?

Svo að hlutverki löggjafans, sem ég gat um áðan, að útfæra í almennum lögum hvaða skyldur verða lagðar á einstaka aðila á grundvelli ákvæðisins um ábyrgð á vernd umhverfis og náttúru. Hér kemur aðeins betur í ljós hvaða ábyrgð er verið að leggja á landsmenn. Þetta eru ekki bara almenn tilmæli um að menn eigi að rækta garðinn sinn í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu. Nei, við sjáum að það er verið að leggja nýjar skyldur á almenning, ákveðna þegnskylduvinnu ef svo mætti segja, eins og skýrist þegar fram vindur í greinargerðinni. Það má minna á að skylda til að fara vel með náttúruna er auðvitað þegar í lögum.

Þá að umfjöllun um þetta hugtak, sjálfbæra þróun. Þar virðist vísað í Brundtland-skýrsluna frá 1987. Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvort það sé nægur grundvöllur til skilgreiningar á þessu, að skýrsla sem fyrrverandi forsætisráðherra Noregs skrifaði fyrir einhverjum áratugum eigi að marka grundvöll á skilningi á stjórnarskrá Íslands. Þá er farið í útskýringar á því hvað átt sé við með réttinum til heilnæms umhverfis og það sem ég freistaðist til að nefna of fljótt áðan, þ.e. áherslan á loftslagsmálin. En það er líka talað um til að mynda líffræðilega fjölbreytni. Hvar draga menn mörkin þar? Rétt eins og með flest af því sem ég hef rakið hér held ég að það sé almenn samstaða hvað varðar viðhorf Íslendinga til þessara mála. En hvað með það þegar búið er að setja í stjórnarskrá kvöð um það að líffræðileg fjölbreytni skuli alltaf varðveitt? Hvaða áhrif hefur það t.d. varðandi mink á Íslandi? Nú er hann orðinn hluti af náttúrunni hér, illu heilli. Mun þetta ekki þá draga úr tilraunum til að útrýma mink þótt það sé nú sjálfsagt ekki raunhæft, a.m.k. að halda honum í skefjum? Hættan við svona orðalag í stjórnarskrá er að fallegir en óljósir frasar séu síðan notaðir til þess að réttlæta það sem ekki er grundvöllur fyrir. Þess vegna þarf stjórnarskrá að byggjast á skýrum reglum og skiljanlegum reglum.

Næst sný ég mér að umfjöllun um réttinn til upplýsinga og þátttöku í ákvarðanatöku. Ég held að það sé rétt að ég byrji á að lesa fyrstu setningu þess kafla í greinargerðinni en þar segir:

„Í 3. mgr. a-liðar 22. gr. er fjallað um rétt almennings til upplýsinga um umhverfið og áhrif framkvæmda á það svo og til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið. Þessi réttindi eru forsenda þess að almenningur geti gætt réttar síns til heilnæms umhverfis.“

Þetta er nefnilega mjög áhugavert í samhengi við réttinn til heilnæms umhverfis. Hér birtist mjög víðtæk skilgreining og ekki er hægt annað en að setja t.d. í samhengi við það sem sagði að ofan um þetta sem tæki í loftslagsstefnu, enda er ekki hvað síst átt við það þegar talað er um heilnæmt umhverfi. Svoleiðis að hér er verið að gera líklega ekki bara Íslendingum heldur fólki víða um heim aukinn rétt til að koma að ákvarðanatöku og öðlast þátttöku í undirbúningi þeirra framkvæmda sem geta losað gróðurhúsalofttegundir, sem eru í rauninni allar framkvæmdir.

Næsta setning á eftir hljóðar svo: „Réttindin hafa einnig mikla þýðingu þegar kemur að ábyrgð almennings á umhverfis- og náttúruvernd …“ Þar komum við að þegnskylduvinnunni sem ég nefndi áðan og segir sína sögu um til hvers er ætlast þegar sagt er að almenningur hafi skyldu til að vinna að umhverfisvernd. Þá virðist hann eiga að nýta þá skyldu ekki hvað síst til þess að senda erindi í hvert skipti sem einhver hyggst framkvæma eitthvað einhvers staðar. Svo er þetta í framhaldinu sett í samhengi við Árósasamninginn sem ég gat um áðan en hann hefur auðvitað þegar haft töluverð áhrif hér á landi. En nú er verið að útvíkka þetta og setja í stjórnarskrá. Þess vegna ítreka ég í lok ræðunnar, fyrst tíminn er að renna frá mér, mikilvægi þess, sérstaklega þegar menn nálgast stjórnarskrá með þessum hætti og setja inn skraut eins og svona fallega frasa, að það sé á hreinu hver tilætluð áhrif þessara frasa eru. Það er líka áminning um mikilvægi þess að ná sem víðtækastri sátt í vinnu við stjórnarskrárbreytingar.

Hæstv. forsætisráðherra vísaði ítrekað í samtalskönnun eða eitthvað slíkt, ég man nú ekki alveg hvað þetta heitir sem hæstv. ráðherra stóð fyrir eða fékk pólitíska samherja sína til að standa fyrir. Þeir unnu þá vinnu eflaust ágætlega og voru reyndar ekki allt endilega pólitískir samherjar, herra forseti, þeir sem kannski innleiddu þetta. En það sem vakti sérstaka athygli mína með þessa miklu áherslu hæstv. ráðherra á þessa samræðukönnun var að það hversu áreiðanleg hún var eða hversu miklu máli hún skipti virtist byggjast á þeirri niðurstöðu sem náðist þar fram. En varðandi forsetakaflann, sem ég hef ekki tíma til að fjalla um í þessari ræðu, var annað uppi á teningnum. Þá virðist Feneyjanefndin svokallaða trompa afstöðu þessarar samræðukönnunar. Hvers vegna á einhver fimm manna hópur, held ég að það sé, Norðmaður, Belgi og Moldóvumaður ásamt fleirum, að ráða meiru um það hvernig við breytum stjórnarskránni en þessi samræðukönnun, sem að öðru leyti virðist eiga að vera sérstök rök fyrir nauðsyn breytinga?

Það er margt skrýtið í þessu, herra forseti. Ég vona að þessi umræða skili samt sem mestum árangri og við forðumst slysin. En hættan við þetta er fyrst og fremst sú hversu óljóst þetta er og hversu ólíkur skilningurinn á áhrifunum mun fyrir vikið verða.