154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

almennar íbúðir og húsnæðismál.

583. mál
[10:07]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það er mér sönn ánægja að vera með á þessu nefndaráliti en eins og kom fram í máli hv. framsögumanns er neyðin mikil. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í nefndinni eru um 70 fjölskyldueiningar, eins og það er kallað, sem þurfa á húsnæði að halda fyrir jól og annað eins mun bætast við, a.m.k. í janúar, febrúar, þegar það frístundahúsnæði sem verkalýðsfélögin létu af hendi þarf aftur að fara í útleigu. Neyðin er því mikil og það má ekki gleyma því að það sem verið er að horfa á hér í þessu ákveðna frumvarpi er stuðningur við þær fjölskyldur sem eru hvað verst staddar tekjulega. Þannig að það er mjög mikilvægt að við klárum þetta mál hér í dag og þá getum við öll sagt við fólkið sem bíður í óvissunni að við höfum gert allt sem við gátum til að flýta þessu. Við þurfum að muna það að við erum bara enn þá í miðjum atburði. Við gætum þurft að auka fjöldann sem er undir í þessu frumvarpi og við gætum þurft að gera fleiri hluti og ég treysti því að ef eitthvað slíkt gerist á meðan þing er í jólafríi þá muni hæstv. forseti ekki hika við að kalla okkur inn.