154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

almennar íbúðir og húsnæðismál.

583. mál
[10:10]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og get þar af leiðandi ekki skrifað upp á álit nefndar en ég lýsi fullum stuðningi við þetta álit sem kom einnig fram í ræðu hv. formanns nefndarinnar, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur. Ég vil fá að þakka Alþingi fyrir skjót og fumlaus viðbrögð vegna stöðunnar í Grindavík. Hér erum við að koma til móts við þá Grindvíkinga sem hafa tekjur undir meðallagi. Bjarg íbúðafélag brást sem betur fer mjög vel við beiðni um að koma að þessu verkefni og hefur gert það af miklum myndarskap. Bjarg ráðgerir nú kaup á 60 íbúðum í sveitarfélögum í nágrenni Grindavíkur og getur þá þjónað Grindvíkingum sem uppfylla skilyrði Bjargs um úthlutun í íbúðakerfi félagsins. Það voru um tíu aðilar í íbúðum á vegum Bjargs í Grindavík og u.þ.b. 50 aðrir Grindvíkingar sem voru á biðlista eftir úthlutun og uppfylltu öll skilyrði. Því er ánægjulegt að sjá að Bjarg muni geta uppfyllt þarfir þessa hóps sem er svo mikilvægt við aðstæður sem þessar. Þrátt fyrir að ríkið muni á þessum tímapunkti greiða allt stofnframlagið, þ.e. 18% hlut ríkisins og 12% af framlagi sem við venjulegar aðstæður myndi falla í hlut sveitarfélags, mun það sveitarfélag sem íbúðirnar verða staðsettar í geta komið inn innan þriggja ára og þá tryggt að íbúðirnar verði til staðar um alla framtíð á þeim skilmálum sem gilda um úthlutun íbúða hjá Bjargi.

Virðulegur forseti. Þessi aðgerð er, hvernig sem á hana er litið, mjög góð og mun gagnast þeim Grindvíkingum vel sem munu fá úthlutun, vonandi á næstu dögum. Þá er tilganginum náð.