152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[16:41]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst við erum að tala um heilbrigðistækni og nýsköpun þá get ég ekki sleppt því að nefna gjaldmiðilinn okkar því að nýsköpunarfyrirtækin sjálf tala um gjaldmiðilinn samkvæmt ítrekuðum mælingum sem eina stærstu hindrun í rekstrarumhverfi sínu. Það hefur auðvitað bara með þau augljósu sannindi að gera að það er erfitt að gera áætlanir í umhverfi sem þú veist ekki hvernig lítur út. Það er veruleiki íslensku krónunnar.

Annað atriði myndi ég vilja nefna, af því að þetta hefur aðeins verið í umræðunni, og það er kynjabreytan í nýsköpun. Það er staðreynd að konur í nýsköpun eru frekar í samfélagslegum verkefnum; menntatækni, heilbrigðistækni o.s.frv. Þegar við skoðum síðan aðgengi að fjármagni þá er dramatísk kynjabreyta þar og halli þannig að hér myndi ég vilja beina því líka til hæstv. heilbrigðisráðherra að þeir nýsköpunarsjóðir t.d. sem ríkið hefur aðkomu að, ég nefni Kríu — hvernig beina þeir fjármagni sínu inn í nýsköpunina? Þar er vel hægt að hafa jákvæða hvata til þess að efla t.d. þessa nýsköpun með því að merkja fjármagnið alveg eins og við gerum með stjórnir, alveg eins og við gerum með ýmis ráð, með því að segja: Við viljum að ákveðinn hluti fjármagnsins fari til kvenna í nýsköpun. Með því að gera það þá værum við um leið mjög markvisst að styðja við nýsköpun í einmitt þessum geirum þannig að þarna held ég að gæti verið sterkur samfélagslegur ávinningur. Við höfum hlustað á konur í nýsköpun nýlega í opinberri umræðu tala um það sem mikið vandamál að ná einfaldlega eyrum með sínar hugmyndir, sín verkefni, sín fyrirtæki.