152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[17:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún bendir á að það er hægt að fara með falleg orð í stefnu og hægt að lofa miklu og tala fallega og segjast ætla að leysa öll heimsins vandamál en svo þarf náttúrlega að útfæra þau og fjármagna þau. Kannski er það með þessi mál rétt eins og loftslagsmálin að það á bara að bíða og sjá hvort við getum ekki leyst þetta seinna eða að hlutirnir lenda bara í starfshópum endalaust til að reyna að finna einhverjar lausnir. En mig langar að spyrja, af því ég veit að hv. þingmaður hefur aðeins meira vit á fjármálunum heldur en ég: Hvernig eigum við að fjármagna svona? Hvernig getum við sem samfélag fjármagnað almennilega þjónustu við aldraða? Hvað myndi hv. þingmaður gera ef hún væri hæstv. fjármálaráðherra og væri að semja við hæstv. heilbrigðisráðherra núna um að fjármagna þessar aðgerðir? Hvar höfum við möguleika á því að finna fjármagn í það að tryggja þessum ört stækkandi hópi eldra fólks mannsæmandi framtíð?