139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

atvinnuleysistryggingar og málefni aldraðra.

339. mál
[02:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Nefndarálitið er frá 1. minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.

Nefndin fékk fulltrúa frá félags- og tryggingamálaráðuneyti á sinn fund og fulltrúa frá aðilum vinnumarkaðarins.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar þess efnis að þeir sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur í fyrsta skipti 1. maí 2008 eða síðar hafi rétt á áframhaldandi atvinnuleysisbótum í tólf mánuði til viðbótar frá þeim degi er þriggja ára tímabili þeirra lýkur, enda uppfylli þeir áfram skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta. Þá er lögð til sú breyting á bráðabirgðaákvæði um heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta á móti minnkuðu hlutastarfi, til launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga, að ákvæðið framlengist til 30. júní 2011 en heimildin mun að óbreyttu falla úr gildi um næstu áramót. Að auki er lögð til sú breyting að starfshlutfall launafólks verði að skerðast um 30% hið minnsta í stað 20% áður svo að viðkomandi geti átt rétt á hlutfallslegum greiðslum.

Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á lögum um málefni aldraðra þar sem lagt er til að Framkvæmdasjóði aldraðra verði heimilt á grundvelli laga um málefni aldraðra að ráðstafa fé úr sjóðnum til reksturs hjúkrunarheimila á árinu 2011.

Þegar fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins komu á fund nefndarinnar kom fram mikil gagnrýni þar sem þeir töldu sig hafa gert samkomulag við ríkið um víðtækari breytingar á lögunum um atvinnuleysistryggingar sem samstarfshópur á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytis vann. Í kjölfar þessa fundar lagði nefndin til breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við athugasemdirnar þó að ekki væri hægt að koma til móts við þær allar vegna kostnaðar.

Helstu breytingar sem 1. minni hluti leggur til á frumvarpinu eru þær að atvinnuleitendur teljist í virkri atvinnuleit þrátt fyrir veikindi í allt að fimm daga á tólf mánaða tímabili eftir að hafa verið skráðir í kerfinu í a.m.k. fimm mánuði. Þá þarf viðkomandi að tilkynna um upphaf veikinda til Vinnumálastofnunar á fyrsta degi þeirra sem og undir lok veikindanna. Hinn tryggði gæti þá aftur orðið veikur í tvo daga innan tólf mánaða frá upphafi fyrri veikinda án þess að það hefði áhrif á greiðslu atvinnuleysisbóta til hans. Nefndin telur að það einfaldi fólki lífið sem er í virkri atvinnuleit og verður fyrir veikindum, það sé hluti af eðlilegum réttindum þar sem veikindi kunni að verða hjá atvinnuleitendum rétt eins og hjá þeim eru á vinnumarkaði.

Þá eru einnig lagðar til breytingar á hlutfallslegum atvinnuleysisbótum. Eins og fram kom í máli mínu fyrr var lagt til að um 30% skerðing á starfshlutfalli þyrfti að vera til þess að hægt væri að fá hlutaatvinnuleysisbætur samkvæmt bráðabirgðaákvæði V. Aðilar vinnumarkaðarins gagnrýndu það mjög og töldu að það mundi ekki leiða til sparnaðar. Það yrði eingöngu til þess að þeir sem væru með 20% skerðingu á starfi sínu færu í 30% skerðingu til að halda bótum og til að detta ekki út af skrá eða að viðkomandi einstaklingar mundu missa vinnuna og fara alfarið yfir í atvinnuleysisbótakerfið.

Til að koma til móts við þær athugasemdir ákvað 1. minni hluti að þeir sem væru með 20% skerðingu á vinnu sinni og allt upp í 29% mundu halda óbreyttum réttindum fram að miðju ári. — Frú forseti. Ég tel að rétt sé að ákvæðið eigi að gilda til 30. júní. En til þess að gera langa sögu stutta halda þeir sem eru núna með 20–29% skerðingu í starfi réttindum sínum til hlutfallslegra bóta en þeir sem koma nýir inn í það kerfi eftir 1. janúar 2011 komast ekki á atvinnuleysisbætur nema um 30% skerðingu á starfshlutfalli þeirra sé að ræða. Það dregur úr þeim sparnaði sem áætlaður er. Talið er að sparnaður verði um 40 milljarðar á hálfs árs grundvelli og 80 milljarðar á ársgrundvelli ef ákvæðið verður framlengt að nýju.

Þá er komið að lengingu bótatímabilsins. Kveðið er á um það í frumvarpinu að þeir sem fyrst voru skráðir á atvinnuleysisskrá 1. maí 2008 muni eiga rétt á framlengingu á bótatímabilinu í allt að tólf mánuði, enda uppfylli þeir enn þá skilyrði um atvinnuleysisbætur samkvæmt lögunum. Fram komu alvarlegar athugasemdir og sumir töldu að þessi réttur ætti að gilda um þá sem urðu atvinnulausir 1. janúar 2008. Nefndin fór yfir málið og taldi eðlilegt að færa dagsetninguna til 1. mars 2008 enda fjölgaði atvinnulausum enn þá.

Það er svo matsatriði hvenær fastsetja á dagsetninguna. Bent hefur verið á að þegar á síðari hluta árs 2007 hafi verið farið að gæta mikil samdráttar í ákveðnum atvinnugreinum. Þegar tölur eru skoðaðar kemur fram að það dettur alltaf ákveðinn hópur dettur út úr atvinnuleysistryggingakerfinu eftir þriggja ára tímabil en ef horft er til hópsins sem fór á bætur 1. mars 2008 kemur fram að hann er mun stærri en hópurinn í janúar og febrúar og mánuðina þar á undan sem ekki komst út úr atvinnuleysistryggingakerfinu innan þriggja ára. Við töldum því að eðlilegt væri að flytja þessa dagsetningu framar en ákváðum að 1. mars væri eðlilegt viðmið að svo stöddu.

Samkvæmt drögum að frumvarpi sem samráðshópur á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytis gerði miðuðu tillögur um breytingar á 59. gr. og 60. gr. laganna að því að styrkja eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar. Fyrsti minni hluti telur eðlilegt að Vinnumálastofnun fái auknar heimildir til eftirlits því að það eru mikil útgjöld í atvinnuleysistryggingunum og það er mikilvægt að standa vörð um að kerfið sé ekki misnotað á þeim tímum þegar svo mikil þörf er á atvinnuleysisbótum fyrir stóran hóp fólks. Við ákváðum að taka inn breytingar við 59. gr., þær eru til þess ætlaðar að skýra nánar ákvæði sem þegar eru í lögunum og sníða af agnúa til að auðvelda Vinnumálastofnun að rækja eftirlit sitt. Varðandi 60. gr. gafst nánast enginn tími í nefndinni til að ræða um það og er þar um efnisbreytingu að ræða. Þó að hún sé ekki mjög stórfengleg töldum við að það mætti vel bíða nýs árs að skoða þessi ákvæði til þess að verkið væri sómasamlega unnið.

Undir nefndarálit þetta rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir framsögumaður, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Einar Daðason og Unnur Brá Konráðsdóttir.