152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[16:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég þarf kannski að byrja á því að undirstrika hversu mikilvægt er að stefna varðandi heilbrigðisþjónustu við aldraða sé skýr og metnaðarfull vegna þess að bæði er þetta hópur sem kallar á mikla og góða þjónustu en líka vegna þess að hann stækkar ört á næstu árum og þá skiptir máli að núna sé byggð upp þjónusta sem geti tekið á þeim áskorunum sem felast í því að hópurinn muni stækka mjög hratt. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að þegar ég blaðaði í þessari stefnu átti ég samt pínu erfitt með að skilja hvað þetta þingmál snýst nákvæmlega um vegna þess að þetta er ekki tillaga um að Alþingi samþykki stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða heldur er þetta tillaga um að við samþykkjum að það verði mótuð stefna í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða. Þá spyr maður sig, frú forseti: Er ráðuneytið kannski bara of skammt á veg komið með þetta mál til að skila því til þingsins? Erum við hér bara með drög að hugmynd að einhverju sem einhvern tíma verður stefna? Svo les maður tillögugreinina sjálfa sem er óvenjulöng, en það gerist stundum með stærri stefnuplögg, þetta eru næstum þrjár síður af markmiðum, sjö meginviðfangsefni eins og það heitir, til að framtíðarsýnin verði að veruleika. Ef við lítum hérna aftast þá kviknar aftur spurning: Hvað verður svo gert? Vegna þess að þingsályktanir enda yfirleitt á einhverju þar sem Alþingi er að segja ríkisstjórninni að gera eitthvað. Alþingi ályktar að ríkisstjórnin geri eitthvað. Það er ekki alveg skýrt en það sem við eigum sem sagt að samþykkja er að þetta verði rammi utan um það hvernig stefna verði mótuð uppi í ráðuneyti í aðdraganda þess að gerðar verði áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila. Þetta hnaut ég um og hugsaði: Væri það ekki áætlunin sem ætti að koma til þingsins? Væru það ekki skjölin sem við ættum að hafa í höndunum með einhverjum meira konkret hugmyndum þar sem búið væri að eiga almennilegt samráð frekar en einhver drög að stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar?

Ég vona bara að nefndin vinni úr þessum skringilegheitum. Það er t.d. tekið fram hérna að mat á fjárhagslegum áhrifum þingsályktunartillögunnar fari fram þegar aðgerðaáætlun fer í mótun og málsmeðferð. Þetta heitir óútfylltur tékki. Þetta heitir að ráðuneytið hafi svo litla hugmynd um það hvaða vinna eigi eftir að fara fram að það vill að það standi í tillögutextanum: Heyrið þið hérna, við tékkum bara á því þegar eitthvert annað fólk er búið að vinna í þessu, þá skulum tékka á því hvað þetta kostar. Ég man ekki eftir að hafa séð svona áður. Ég skil alveg að fjárhagsleg áhrif og umfang geti verið huldu á þessum tímapunkti en þess þá heldur að taka mótaða aðgerðaáætlun til fimm ára til þings aftur til afgreiðslu og þá sem þingsályktunartillögu. Þá fengi hún líka aukið vægi. Þá væri þingið búið að fara yfir hana og þá væri hægt að fylgja henni eftir af auknum þunga.

Svo er annað sem vantar í framkvæmdakaflanum. Það er tímaramminn. Hvenær á þessi fimm ára stefna að líta dagsins ljós? Mig rámar t.d. í ekki ósvipað plagg sem var samþykkt hér á þingi síðasta eða þarsíðasta vetur um menntaáætlun til 2030, sem var reyndar frekar þunnur tillögutexti og svona í stikkorðastíl, en þar stóð samt skýrum orðum að sú fimm ára aðgerðaáætlun sem ætti að móta á grundvelli þeirrar samþykktu stefnu, því það skjal fékk að heita stefna, ætti að vera tilbúin innan sex mánaða frá samþykkt tillögu Alþingis. Svona ramma þarf hafa sérstaklega skýran á tímum þar sem ríkisstjórnin er æ ofan í æ farin að sýna að hún lítur að þingsályktunartillögu sem skjöl sem ekki þurfi endilega að hlíta, hvað þá að fylgja tímamörkum, ekki einu sinni þegar um er að ræða tillögur frá ríkisstjórninni sjálfri, hvað þá tillögur sem stjórnarliðar leggja fram.

Ég velti líka fyrir mér hvort þessar viðvörunarbjöllur hafi farið að hringja hjá mér við lestur tillögunnar þegar ég sá þessar stórundarlegu vísanir í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Á tveimur stöðum á þessum þremur síðum í tillögugreininni stendur að það eigi að vinna í samræmi við stjórnarsáttmála. Ég man aldrei eftir því að Alþingi hafi verið beðið um að samþykkja frá sér tillögutexta sem segir: Starfið hér í samræmi við stjórnarsáttmála þriggja af þeim átta flokkum sem sitja á þingi. Þetta kemur oft og iðulega fram í greinargerðum og er yfirleitt byrjað á því að réttlæta framlagningu mála með því að vísa til stjórnarsáttmála í greinargerð og það er alveg eðlilegt en að ætlast til þess að hluti af þinglegri meðferð sé að festa í tillöguform þann vilja Alþingis að stjórnarsáttmáli þriggja flokka sé einhvern veginn Alfa og Omega í vinnu sem eigi að standa til ársins 2030. Ég vona að það verði komnir aðrir flokkar við stjórn miklu fyrr og geti brett upp ermarnar í þessum málum og sýnt aukinn metnað.

Þá ætla ég að koma að því sem er eiginlega aðalatriðið eða eitt af aðalatriðunum. Það hefur verið farið yfir ýmsa þætti í þessari tillögu í umræðum í dag og fyrir helgi en mig langar sérstaklega að tala um 3. tölulið tillögunnar sem ber yfirskriftina Fólkið í forgrunni. Ef ég skil rétt er það starfsfólkið af því að mér sýnist nú aldraða fólkið yfirleitt kallað annaðhvort notendur eða aldrað fólk í tillögunni. Til að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar til lengri tíma eru lagðir til tveir verkþættir, annars vegar að sjá til þess að menntun og þjálfun starfsfólks sé í samræmi við kröfur um gæði og hins vegar að það verði haft samráð við heilbrigðisstéttir um úrvinnslu aðgerða. Það kemur líka fram í textanum þar sem er sagt hvernig eigi að vinna þessar aðgerðaáætlanir. Þar er talað um að það eigi að vera í samráði við helstu hagsmunaaðila eins og er svo sem sjálfsagt þegar mótuð er stefna. Í rauninni er því seinni liðurinn í þessu tvítekning og þá stendur eftir að það eigi að tryggja mönnun með því að passa að starfsfólkið sé almennilega menntað, en algerlega skautað fram hjá lykilatriðinu þar sem kemur saman heilbrigðispólitík, fjármálapólitík og kvennapólitík sem eru launin hjá þessum stéttum. Vegna þess að stéttirnar sem starfa í heilbrigðiskerfinu, stéttirnar sem veita öldruðu fólki þjónustuna sem hér á að efla eru allt kvennastéttir sem er haldið á lágum launum, yfirleitt af opinberum aðilum, ríki eða sveitarfélögum sem halda þessari þjónustu úti. Ef fólkið væri raunverulega í forgrunni væri talað um þetta í þessari áætlun af því að við tökumst ekki á við stórkostlega fjölgun aldraðs fólks með færra starfsfólki, með áframhaldandi flótta úr heilbrigðisstéttum, heldur með því að fullfjármagna heilbrigðiskerfið á þann hátt að fólk fái almennileg laun fyrir að starfa í því, ekki bara með því að fá nógu mikið af fólki þangað heldur að fólk fái almennileg laun til að það hrökklist ekki úr starfi (Forseti hringir.) vegna bágra kjara. En nei, (Forseti hringir.) heilbrigðisráðuneytið taldi þessa (Forseti hringir.) þingsályktun ekki vera vettvang (Forseti hringir.) (Forseti hringir.) til að fara yfir þau mál. Hvar þá, frú forseti? (Forseti hringir.) Hvar þá?