152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[18:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að koma hér upp í lokin, þar sem það fer að sjá fyrir endann á þessari umræðu, og þakka umræðuna, þakka þær fjölmörgu góðu ræður og spurningar sem kannski hafa mikið til verið í ábendingarformi. Þetta mál á alla athygli verðskuldaða. Þetta er stórt mál. Þetta er mjög mikilvægt mál og það er mjög mikilvægt að það fái framgang. Hér er það sett í stefnumótandi ferli. Það er alveg rétt, sem hefur komið fram í umræðunni, að hér eru fögur fyrirheit en þau eru líka óhjákvæmileg ef okkur á að takast að bæta stöðuna og ekki bara stöðuna í heilbrigðiskerfinu og þjónustu við fólkið í landinu heldur á öllum málefnasviðum sem snúa að þjónustu við fólk á fjölmörgum öðrum sviðum. Nú er það þannig, af því að hér hefur verið komið inn á það hvernig við ætlum að fjármagna þennan pakka, þegar við getum verðlagt hann í aðgerðaáætluninni sem á eftir fylgir, ef við erum í einhverjum vafa um að við stefnum að og viljum búa í velferðarþjóðfélagi, að 6 af hverjum 10 kr. í formi ríkisútgjalda fara í velferðarmál. Það er bara í einu ráðuneyti í Skógarhlíð og við erum með tíu önnur. Ég get tekið undir hvert orð sem hér hefur verið sagt um að við sem erum í stjórnmálum stöndum alltaf frammi fyrir því að þurfa að forgangsraða fjármunum. Það blasir við okkur.

Þetta mál er mjög mikilvægt og ég fagna því þegar við ræðum af ábyrgð um það hvernig við fjármögnum þjónustuna okkar. Þegar við erum í umræðu um stór og mikilvæg verkefni og fjölmargar góðar ábendingar koma fram og ræður þá eru það kannski síðustu ræðurnar sem sitja í manni. Ég vil nefna ræðu hv. þm. Vilhelms Wessmans sem sagði hlutina svolítið eins og þeir eru og dró fram mikilvægi samráðs. Við erum hér að setja þetta í stefnumótandi ferli og Fjármálaráð hefur oft bent okkur á að þetta hringrásarferli stefnumörkunar sé æskilegt. Lög um opinber fjármál eru farin að setja okkur þann ramma að horfa á málin í stefnumótandi ferli. Landssamband eldri borgara og fjölmargir fulltrúar sem kunna þetta, þekkja þetta, munu taka þátt í þeim hópi. Sá hópur mun taka á þeim hluta sem snýr að heilbrigðisþjónustu og þessi stefnumótun verður veganesti fyrir þann hóp. Styrkurinn í því veganesti er umfjöllun Alþingis og velferðarnefndar. Þetta verður hópur sem verður sameinaður á vegum félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í mjög breiðu samráði. Við getum ekki farið inn í þessa vinnu þegar kemur að aðgerðaáætluninni sem slíkri þar sem við þurfum að kostnaðarmeta, og ég vona að okkur takist að meta líka ábatann af því í samanburði við það að gera ekki neitt. Það er mjög mikilvægt, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, sem hefur átt sæti í hv. fjárlaganefnd um nokkra hríð, bendir okkur reglubundið á. Þetta kom líka fram hjá fjölmörgum í umræðunni og er afar mikilvægt.

Hér var komið mikið inn á mönnunina. Það er stór áskorun, mikil áskorun. Þess vegna tekur þáttur velferðartækni, tækni- og nýsköpunar, þáttur öldrunarráðs, eða hvað það nú er kallað, háskóla- og öldrunarstofu, undir þann þátt af því að kallað var eftir stefnumótun í velferðartækni. Þá stefnumótun er að finna í heilbrigðisstefnu til 2030. Mér fannst það góð ábending. En við þurfum að finna þeim þætti farveg vegna þess að við þurfum að sinna heimaþjónustunni í auknum mæli. Við þurfum að hjálpa fólki að búa lengur heima. Við verðum að koma með fjölbreytt búsetuúrræði. Þetta er allt að finna hér. Við viðurkennum mikilvægi heilbrigðisstétta í þeirri umfjöllun sem fór fram um kjör og starfsskilyrði heilbrigðisstétta, sem er auðvitað afar mikilvægt, og fyrr í umræðunni ræddum við um þessa öryggiskennd sem er okkur svo dýrmæt í heilbrigðisþjónustu sem við verðum alltaf að varðveita og leggja okkur fram um það. Við viðurkennum mikilvægi allra heilbrigðisstétta og það hefur verið svolítið vandasamt, svo ég haldi því nú til haga til mótvægis við þessa umræðu, að tiltaka einstaka heilbrigðisstéttir inn í svona stefnumótun, þannig að því eru gerð skil hér.

Ég ætlaði bara að lokum, hæstv. forseti, að þakka þessa góðu umræðu og góðu ábendingar og ég held að það sé ekkert síður gott veganesti fyrir hv. velferðarnefnd að taka með sér í umfjöllun um málið þegar hún leitar eftir athugasemdum og frekari umsögnum um þetta mál.