141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara halda aðeins áfram frá því sem hv. þingmaður sagði. Það kom fram hjá fulltrúum aðila vinnumarkaðarins að þegar þeir settust niður með ríkisvaldinu á sínum tíma og reyndu að búa til ákveðinn ramma utan um þá kjarasamninga sem var verið að reyna að ná saman var gert ráð fyrir því að fjárfestingar yrðu í kringum 20% af vergri landsframleiðslu. Það hefur hins vegar ekki tekist og fyrir því eru margvíslegar ástæður. Mjög margar þeirra eru vegna pólitískrar íhlutunar ríkisvaldsins sem hægt væri að tíunda hérna en ég ætla ekki að gera það.

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að núna vantar um það bil 100 milljarða inn í verga landsframleiðslu sem væri ella til staðar ef menn hefðu náð þeim markmiðum sem stefnt var að á sínum tíma. Það þýðir síðan aftur að tekjuauki ríkisins fyrir þetta væri í kringum 40 milljarðar á ári sem við hefðum meira úr að spila en við höfum í dag vegna þess að ekki tókst að ná þessum markmiðum. Þarna sjáum við hvað það er gríðarlega þýðingarmikið að okkur takist að byggja upp fjárfestingu sem við þurfum á að halda og þess vegna er þeim mun sorglegra að menn skyldu fara í þá vegferð að ýta burtu þeim virkjunarkostum sem mest eru rannsakaðir og augljóslega hafa minnstu umhverfisáhrifin, eins og til að mynda Holts- og Hvammsvirkjanir í neðri hluta Þjórsár. Látum Urriðafossinn liggja á milli hluta að sinni vegna þess að hann er sannarlega umdeildari kostur.

Ég vona svo sannarlega að við náum núna sáttum fremur en áður. Mér finnst margt hafa bent til þess. Mér finnst að við hljótum að verða að viðurkenna núna að þessi síðasta aðkoma hæstv. ríkisstjórnar í málinu tókst ekki vel. Það er alveg augljóst. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því en það er augljóst að það tókst ekki vel til. Það hefur búið til heilmikla tortryggni.

Svo ég horfi á þetta frá umhverfissjónarmiðinu held ég að þessi umræða hafi til dæmis líka dýpkað eða gert áleitnar ýmsar spurningar sem hafa verið uppi um jarðhitavirkjanirnar sem eru sannarlega áhersluatriðið í þessari (Forseti hringir.) þingsályktunartillögu.