151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Án þess að ég hafi fylgst sérstaklega með þingsályktunartillögu eða vinnu sem tengist mati á því hverjar auðlindirnar séu og hvernig þær skuli skilgreindar — ég þekki það ekki nægilega vel — myndi ég halda að við komumst seint á þann stað að geta komið með tæmandi talningu eða altækar skilgreiningar á því hvað auðlindir eru. Það getur breyst frá einum tíma til annars. Hagnýting mismunandi gæða náttúrunnar getur verið ólík frá einum tíma til annars. Það sem er verðmætt í dag kann að verða verðminna á morgun og það sem er verðlaust í dag getur orðið mjög verðmætt á morgun. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar að vilji menn á annað borð hafa ákvæði um auðlindir, eignarhald auðlinda eða nýtingu auðlinda, í stjórnarskrá þá eigi það að vera almennt orðað. Og ef menn hafa áhuga á því að knýja fram einhverjar tilteknar breytingar eða tiltekið fyrirkomulag á ákveðnum sviðum auðlindanýtingar eigi að gera það með almennum lögum en ekki í stjórnarskrá. Þess vegna held ég að það ákvæði sem er að finna í frumvarpi forsætisráðherra sé öllu betra en mörg fyrri ákvæði sem gerðar hafa verið tillögur um vegna þess að það er tiltölulega almennt og getur átt við um fjöldamargar auðlindir á mismunandi tímum og það er skilið eftir eðlilegt svigrúm fyrir löggjafann til að setja sérreglur um sérstök svið.