Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:38]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég er búinn að eiga í nokkrum erfiðleikum með að skilja þetta frumvarp. Ég á erfitt með að átta mig á hvaða vandamál því er ætlað að leysa. Hér hafa þó nokkrir hv. þingmenn talað um skilvirkni. Ég sé ekki þessa skilvirkni, sé ekki að meðferðartíminn styttist og sé ekki að kostnaðurinn minnki. Ég sé þvert á móti ekki betur en að meðferðartími muni lengjast með auknum kostnaði. Eina breytingin sem ég sé er að verið er að útiloka möguleika á endurupptöku mála. Útlendingastofnun hefur verið gerð afturreka með ótal ákvarðanir sem snúið var við í meðförum kærunefndar útlendingamála, mál þar sem réttindi fólks á flótta höfðu verið fótum troðin. Nú á að gera því ókleift að sækja rétt sinn til að fá slík mál leiðrétt.

Það var ekki fyrr en í gær sem ég skildi þetta mál. Þar sem ég hef eingöngu innsýn leikmanns í málið gerði ég það með því að setja það í samhengi sem ég skil. Fyrir mér er þetta nokkurn veginn á þennan veg: Við erum með starfsmann ríkisstofnunar sem þarf að komast upp á hálendið. Að áfangastað liggur fullkomlega fær vegur og um legu vegarins er ágætissátt. Þessi starfsmaður hefur hins vegar brugðið á það ráð, mögulega vegna tímaskorts, að stytta sér leið með utanvegaakstri. Landvörður nokkur hefur orðið þess var og staðið þennan starfsmann að utanvegaakstri sem hefur kallað bæði á tiltal og sektir, en allt kemur fyrir ekki og starfsmaðurinn sem um ræðir bregður æ oftar á það ráð að aka utan vegar. Þrátt fyrir að utanvegaakstur hafi ekki þótt neitt sérstakt tiltökumál hér á árum áður höfum við sem betur fer orðið meðvitaðri um slæmar afleiðingar utanvegaaksturs. Hjólför í viðkvæmri náttúru eru lýti á landinu okkar og ekki síst getur því fylgt mikill orðsporshnekkir að taka utanvegaakstur ekki alvarlega, bæði innan lands og á alþjóðavísu.

Það er auðvitað hægt að leysa þetta mál á marga vegu. Eðlilegasta leiðin að mínu mati er að veita starfsmanninum tiltal um að utanvegaakstur sé ekki eitthvað sem við viljum kenna okkur við, sérstaklega þegar við horfum til þess hversu skaðlegur hann er. Það er ekki það sem við ætlum að gera í þessu máli — ó, nei. Í þessu máli er nefnilega búið að finna aðra lausn. Við einfaldlega merkjum þá staði þar sem starfsmaðurinn er búinn að keyra utan vegar sem veg. Þá er enginn utanvegaakstur. Þannig getur starfsmaðurinn haldið áfram að stytta sér leið en ekki er lengur um að ræða utanvegaakstur heldur bara akstur. Í staðinn fyrir að lagfæra skaðann á landinu malbikum við bara yfir viðkvæma náttúru. Síðan, til að allt ferlið sé rosalega gagnsætt, fáum við landvörðinn sem stóð starfsmanninn að utanvegaakstrinum til að koma í hvert skipti sem ekki er ekið utan vegar til að staðfesta að ekki hafi verið ekið utan vegar. Við erum auðvitað ekki búin að leysa nokkurt einasta vandamál annað en að hvítþvo athæfi sem hefði aldrei átt að eiga sér stað.

Fyrir mér varðar þetta mál nokkra þætti, þar með talið mannréttindi. Það er mér óskiljanlegt að ekki hafi verið gengið úr skugga um að þetta brjóti ekki mannréttindakafla stjórnarskrárinnar eða þær alþjóðlegu skuldbindingar sem íslenska ríkið er bundið af.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem við öll hér inni lögðum drengskap okkar að veði til að vernda:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Það er nauðsynlegt að íslenskt mál geti brugðist við nýjum veruleika. Í því felst að við tökum inn ný orð, merking annarra þróist og breytist og þau jafnvel hverfi. Ég skil samt ekki hvernig hægt er að skilja orðið allir á þann veg að það undanskilji stóra hópa. Þar sem hér er um að ræða tilraun til að draga úr réttindum stórra hópa, hvaða aðstæður að mati stjórnarliða réttlæta það að svipta stóra hópa mannréttindum? Ég kalla jafnframt eftir því að það sé rökstutt sérstaklega hvernig þetta frumvarp brýtur ekki 65. gr. stjórnarskrárinnar eða eftir atvikum önnur ákvæði hennar. Finnst hv. þingmönnum réttlætanlegt að fara í þessar breytingar til að vernda framkvæmd stjórnkerfisins án þess að það sé fyrirséð að þær stytti meðferðartíma og án þess að búið sé að taka af öll tvímæli um að þær standist stjórnarskrá og alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar?

Mér þykir sorglegt að í stað þess að vinna að auknum mannréttindum erum við að fórna réttindum fólks, sem með sanni má segja að sé búið að þola nóg, til að þurfa ekki að fara í þær breytingar sem þarf til að aðgerðir Útlendingastofnunar standist lög. Það er líka mikilvægt að árétta að það er engin andstaða við að gerðar séu breytingar í málaflokknum. Þvert á móti er brýnt að við förum í breytingar á þessum málaflokki. Það er hins vegar lykilatriði að þær breytingar séu gagnlegar og stuðli að skilvirkari framkvæmd sem standist síðast en ekki síst stjórnarskrána. Slíkum breytingum má best ná fram með því að taka mark á umsögnum og athugasemdum þeirra sérfræðinga sem að þessum málum starfa. Það er fólkið sem sér gallana og líka lausnirnar. Með leyfi forseta, les ég upp úr umsögn Íslandsdeildar Amnesty International:

„Samkvæmt frumvarpinu er því einkum ætlað að stuðla að gagnsærri og stöðugri framkvæmd laganna, auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma til hagsbóta fyrir verndarkerfið og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þrátt fyrir þessi yfirlýstu markmið eru gildar ástæður til að halda því fram að frumvarp þetta muni leiða til mun lakari stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd en nú þegar er við lýði gagnvart stjórnvöldum. Hröðun málsmeðferðartíma má ekki koma niður á grundvallarréttindum einstaklinga.

Íslandsdeild Amnesty International hefur áhyggjur af fleiri ákvæðum frumvarpsins. Sem dæmi má nefna að frumvarpið gerir strangari kröfu m.a. um rétt einstaklinga til að fá mál sitt endurskoðað í samanburði við hin Norðurlöndin, þ.m.t. Svíþjóð. Þykir því ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af þróun virðingar fyrir mannréttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi. Íslandsdeild Amnesty International minnir á þær ríku skyldur stjórnvalda að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar og mikilvægi þess að axla ábyrgð og skapa hér góð skilyrði fyrir fólk á flótta. Íslenskum stjórnvöldum ber að tryggja að lög séu í samræmi við alþjóðlega mannréttindasamninga, svo sem mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, samning Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland hefur fullgilt, auk barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu sem báðir hafa verið lögfestir hér á landi.

Ítrekað hefur verið bent á skort á samráði við gerð frumvarpsins auk þess að bent hefur verið á verulega vankanta á efni frumvarpsins. Deildin áréttar sérstaklega áskorun sína og 14 annarra samtaka til ríkisstjórnarinnar um að draga þetta frumvarp til baka og vinna það betur og í mun meira samráði við alla þá hagsmunaaðila sem að málaflokknum koma. Mikilvægt er að lagabreytingar sem þessar séu unnar í þverfaglegu samráði, til þess að skapa sátt um stefnu og lagaumhverfi í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi.“

Þessi umsögn er ágætlega lýsandi fyrir þær umsagnir sem komið hafa fram frá öðrum aðilum og sýnir að andstaða Pírata er hvorki sýndarmennska né ómálefnaleg heldur staðfestir að frumvarpið er einfaldlega ekki nógu vel unnið og ekki í nægilegu samráði við hagsmunaaðila. Samráð er lausnin en samráði þarf að fylgja möguleiki til að hafa áhrif. Samráð sem ekki getur haft áhrif á ferlið er einfaldlega ekki samráð.

Hér hafa margir hv. þingmenn lagt fram spurningar um hversu mörgum við getum tekið við. Mig langar að spyrja á móti: Hvað geta fæðingardeildir tekið á móti mörgum börnum? Hvað getum við slökkt marga elda? Hversu mörgum fótbrotum getum við sinnt? Þetta er einfaldlega ekki þannig vandamál og augljóslega er þörf á hugarfarsbreytingu. Við þurfum að nálgast þessi vandamál á allt annan hátt. Við sjáum það líka að við getum brugðist hratt við stórum hópi fólks. Við sjáum það á því hvernig við gátum brugðist við þegar hingað leitaði fjöldi fólks frá Úkraínu í leit að vernd. Við sjáum það líka á því að hingað leitar fullt af fólki frá Evrópu sem kemur hingað stórslysalaust, fyrir utan að hundruð milljónir Evrópubúa eiga fullan rétt á að koma hingað og setjast að. Það þykir ekki einu sinni fréttnæmt.

Mig langar líka að ræða gagnsæi. Ég get ekki með nokkru móti skilið hvernig við ætlum að tryggja eðlilega málsmeðferð þegar svo mikið af matskenndum hlutum er að finna í frumvarpinu. Hvenær er umsækjandi samvinnufús? Hvenær er heilbrigðisþjónusta nauðsynleg? Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja gagnsæi? Í ljósi þeirrar atburðarásar sem átti sér stað nýlega, þar sem fjölmiðlum var gert ókleift að fylgjast með máli þar sem fólk var beitt valdi til að vísa því úr landi með því að nýta flóðljósabúnað til að koma í veg fyrir myndatökur, þá er ljóst að gagnsæi er ekki eitthvað sem framkvæmdaraðilar setja í forgang. Ein af höfuðáherslum okkar Pírata er einmitt gagnsæi og það veitir ekki af að auka gagnsæi í þessum málaflokki. Engin af þessum breytingum gerir það hins vegar. Þvert á móti eru margar þeirra til þess fallnar að draga úr því.

Okkur sem búum í upplýstu og frjálsu samfélagi er það afar mikilvægt að geta veitt stjórnvöldum aðhald, og gagnsæi er þar lykilatriði. Án þess er svo til ómögulegt að veita stjórnvöldum aðhald. Hvað varðar aðhald hef ég persónulega reynslu af því að fylgja eftir málefnum vegna talningarklúðursins í Norðvesturkjördæmi. Það er gott dæmi um ábyrgðarleysi stjórnvalda sem ekki tóku mark á kærum og virðast hafa litið fram hjá ansi skýrum refsiákvæðum laga. Því er ekki að undra að traust almennings á stjórnvöldum sé takmarkað. Þetta takmarkaða traust mun ekki aukast með þessu frumvarpi. Almenningur hefur eðlilega brugðist ókvæða við harðneskjulegum aðförum að fólki og við höfum séð mörg dæmi um vantraust á Útlendingastofnun. Nýlegasta dæmið er skúrkurinn í jóladagatali RÚV.

Eitt af því sem ég átti mjög erfitt með að skilja við þetta frumvarp var að ákvarðanir Útlendingastofnunar yrðu sjálfkrafa kærðar. Hver er tilgangur þess að embættið fjalli um mál ef ákvarðanir eru sjálfkrafa kærðar? Það rann upp fyrir mér hver tilgangurinn var: Nú fær kærunefndin, sem hefur verið að snúa við ákvörðunum, að staðfesta afgreiðslu Útlendingastofnunar þrátt fyrir ágallana sem hingað til hafa verið nýttir til að snúa við ákvörðunum. Þannig fæst ákveðinn hvítþvottur á fyrri ákvarðanir og kærunefndin lítur út fyrir að vera ósamkvæm sjálfri sér. Það er fyrir mér algjörlega tilgangslaust að embættið fjalli um þessar ákvarðanir ef það er síðan sjálfkrafa kært. Væri ekki miklu eðlilegra að þessi mál færu beint til kærunefndarinnar sem gæti þá tekið beina ábyrgð á sínum ákvörðunum, frekar en að vera sett í að samþykkja ákvarðanir annars stjórnvalds?

Hér vísaði hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir í landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins um að fólk sem kemur hingað með vinnu fái að vera. Þetta kann að hljóma ágætlega, en raunveruleikinn er sá að þetta er meira en að segja það. Þegar umhverfið er flókið er afar hæpið að fólk, sem annars væri alveg til í að setjast hér að, þurfi frá að hverfa vegna þess að það getur tekið margar vikur eða mánuði að klára ferlið. Á sama tíma starfa hér fyrirtæki sem bráðvantar að fá þetta fólk til starfa. Þetta eru vandamálin sem við eigum að leysa, ekki það hvernig við getum sem best vísað fólki í neyð frá landinu.

Allar þessar hindranir sem um ræðir eru síðan mannanna verk og við getum vel, ef okkur sýnist, breytt því. Mér þykir afar sorglegt að horfa upp á tómlæti hv. þingmanna gagnvart því hvernig þetta frumvarp gengur þvert gegn þeim skyldum sem við höfum tekið á okkur með staðfestingu flóttamannasamnings og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem og mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Nú hafa margir hv. þingmenn talað um hversu vönduð vinnan við frumvarpið hafi verið og skilja ekki andstöðu við það. Hvernig má þá skýra nýlegar yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur, um að til standi jafnvel að breyta frumvarpinu? Hvers vegna þarf að breyta þessu vel unna frumvarpi? Er til of mikils mælst að við fáum að heyra í hverju þær breytingar felast, eða er það ekki örugglega okkar hlutverk að ræða frumvarpið hér?