153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sammála honum um að umræðan sé nokkuð þokukennd og því miður er mörgu haldið fram sem fær ekki alveg staðist. Sem dæmi má nefna það sem fram kom í ræðu hv. þingmanns, um að Ísland sé að taka á móti mun fleiri umsækjendum um vernd en nágrannalönd okkar, og tiltók þingmaður sérstaklega Svíþjóð en einnig önnur nágrannaríki. Það er rangt. Svíar tóku á móti rúmlega 50.000 flóttamönnum bara frá Úkraínu í mánuðunum janúar til nóvember. Jafnvel hlutfallslega er þetta bara á pari við það sem við erum að gera. (Gripið fram í.)0Fyrirgefðu, ég er hérna með orðið, getur forseti beðið hv. þm. Birgi Þórarinsson um að hætta að gjamma fram í? (Forseti (DME): Forseti biður hv. þingmann um að nota ræðupúltið til að tjá sig.)

Svíar eru 25 sinnum fleiri en Íslendingar. Það vill svo skemmtilega til að umsóknir frá Úkraínu á Íslandi eru einmitt 25 sinnum færri en umsóknir Úkraínu í Svíþjóð. Þetta stenst næstum því upp á umsókn. Það er ótrúleg tilviljun. Ef við horfum t.d. á umsóknirnar í Póllandi þá eru þær 1,5 milljónir. Umsóknum frá öðrum ríkjum en þeim sem við höfum sérstaklega boðið hingað hefur ekki fjölgað á undanförnum árum, ekki neitt. Þá erum við ekki að tala um Covid-árin sem voru auðvitað öðruvísi, en ef við horfum bara á lengri tíma — ég ætla ekki að fara að bera saman færri umsóknir og segja að það sé eðlilegt heldur er þetta bara eins og það er — þá hefur umsóknum frá öðrum ríkjum en þessum tveimur sem við höfum boðið velkomin hingað ekki fjölgað. (Forseti hringir.) Ég held að það sé betra fyrir umræðuna, svo við tryggjum að hún sé ekki eins þokukennd og hv. þingmaður var að tala um, að við pössum okkur að vera með staðreyndirnar á hreinu.