Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:31]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég ætla ekki að tjá mig um fylgni við stjórnarskrá að öðru leyti en að taka undir það sem hér hefur komið fram í ræðum margra þingmanna, að það hefði farið betur á því að fram fari heildstætt, óháð mat á samræmi við stjórnarskrá til að fólk geti verið öruggara í því hvað það er að samþykkja hérna. Ég sé ýmsar vísbendingar um að efnismeðferð almennt hefði getað verið betur ígrunduð. Það sem ég ákvað að eyða mestum tíma og púðri í í minni ræðu, varðandi hvernig á að refsa börnum fyrir ákvarðanir foreldranna, finnst mér skýrasta dæmið, þess vegna ákvað ég að eyða mestri orku í það. Hvernig þetta læðist í gegnum umsagnarferli — reyndar voru umsagnir, líkt og ég rakti, sem bentu á þetta, en þetta læðist svolítið í gegnum meiri hluta nefndarinnar sem ávarpar þetta ekki að nokkru leyti. Það skortir nægilega ítarlega skoðun á fylgni við stjórnarskrá fyrir minn smekk — það er að sjálfsögðu smekks- og matsatriði fyrir hvern og einn hvað fólk telur sér nægja í þeim efnum — og það finnst mér vera nægileg rök til að vilja ekki samþykkja þetta frumvarp.