Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en sagt það sem ég segi yfirleitt: Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. En virðulegur forseti, mér finnst sú orðræða sem hér var höfð við ekki vera við hæfi í þessum sal. Mér fannst þessi ræða líkjast meira einhverri Morfís-keppni framhaldsskólanna. Ég verð að viðurkenna það, hv. þingmaður, að ég hélt að þú værir vandari að virðingu þinni en að tala hér um einhverja ofbeldismeðferð þessa máls. Við hv. þingmaður höfum átt mjög góð samskipti hér í þingsal og oft góðar umræður, m.a. um ofbeldismál, en það að líkja meðferð okkar í meiri hlutanum í umfjöllun um þessi mál, þar sem við höfum orðið við öllum beiðnum um gestakomur, við eitthvert ofbeldi — fyrirgefið, hv. þingmaður, mér finnst ekki boðlegt að tala með þessum hætti. Að tala svo með þeim hætti, af vanvirðingu við okkur hér sem höfum talað fyrir þessu máli, að við séum með einhverja talpunkta, ég veit ekki betur en að ég hafi tekið virkan þátt í umræðu um útlendingamál og tjáð mig og mínar skoðanir í þeim efnum. Mér finnst það því bara virðingarleysi að tala með þessum hætti til þeirra sem skipa meiri hluta í þessari nefnd.

Þá skal komið að því að hv. þingmaður talar hér mikið um stjórnarskrána og veltir því upp hvort þetta frumvarp standist stjórnarskrána. Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að það er frumskilyrði okkar sem sitjum hér í þessum sal að virða stjórnarskrá Íslands. Að sjálfsögðu er það líka frumskilyrði þeirra ráðherra sem vinna í okkar umboði, þeirra embættismanna sem starfa inni í ráðuneytunum, þeirra lögfræðinga sem við njótum (Forseti hringir.) þjónustu frá í þinginu. Það er einn aðili sem benti á að betur færi á því að rökstyðja betur hvernig þetta frumvarp (Forseti hringir.) samræmdist stjórnarskránni. Það er þess vegna sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd kallaði eftir þeim rökstuðningi úr ráðuneytinu. (Forseti hringir.) Hann birtist bæði í minnisblaði frá ráðuneytinu og í meirihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að virða tímamörk. Ræðutíminn er tvær mínútur, ekki tvær og hálf.)