Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir ræðuna. Það vakti einmitt áhuga minn eitt sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni sínu í ræðunni, sem eru þessar hugmyndir, sem þingmönnum meiri hlutans er svo tíðrætt um, um hvernig megi auðvelda aðgengi fólks frá löndum utan EES að koma hingað til að sækja um dvalarleyfi, eins og þau orða það, — þó að flóttafólk sé auðvitað ekki að sækja um neitt nema dvalarleyfi þegar það kemur — en það sem þau eiga við er dvalarleyfi vegna atvinnu. Við skulum því bara tala um það þannig. Það sem mér þykir einmitt áhugavert við þessar hugmyndir er kannski það sama og hv. þingmanni, sem er að ekkert þeirra virðist vita hvernig þau ætla að gera þetta, hvað þau ætla að gera, hverjar hugmyndirnar raunverulega eru. Nú hef ég nokkrum sinnum spurt þingmenn meiri hlutans, bara svona í almennu spjalli, af miklum áhuga á þessum málaflokki og forvitni um hann, hvað það er sem þau sjá fyrir sér. Í dag eru mjög fáar tegundir dvalarleyfa sem byggja á atvinnu. Það er nefnilega þannig í lögum um útlendinga að þú mátt ekki dvelja hérna en þú getur fengið dvalarleyfi og það eru ákveðnar tegundir dvalarleyfa. Það ekkert almennt dvalarleyfi til sem er bara: Þú mátt vera hérna, enginn veit af hverju. Það er ekki ekkert svoleiðis dvalarleyfi heldur byggja þau öll á einhverjum forsendum. Þau dvalarleyfi sem eru vegna atvinnu eru annars vegar fyrir fólk með sérstaka hæfni eða menntun sem sinnir tilteknum sérhæfðum störfum. Þá þarf til þess háskólamenntun. Starfið þarf að krefjast háskólamenntunar og þú þarft að hafa hana. Ef svo er ekki þá þarf vinnuveitandi að sýna fram á að hann geti ekki fundið neinn til að sinna þessu starfi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Nú er ég búin með tímann og ég er ekki einu sinni komin að spurningunni. Ég held áfram í mínu seinna andsvari (Forseti hringir.) en ætla kannski bara rétt að heyra hvað þingmaðurinn hefur að segja um þetta.