145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það mál sem hæstv. ráðherra færir hér inn, sem eru lyktir ESB-máls-umsóknarinnar í tíð síðustu ríkisstjórnar, er gerólíkt þessu. Eins og hæstv. ráðherra segir var það mál sett á ís, en það var ríkisstjórnarsamþykkt fyrir því sem allir stóðu að, þar á meðal ég, þannig að það voru allt aðrar aðstæður og aðrir orsakavaldar sem ollu því.

Ég mundi samt í sporum hæstv. ráðherra íhuga stöðu mína ákaflega vel þegar um er að ræða jafn stórt mál og Ríkisútvarpið. Hæstv. ráðherra hefur einbeitta stefnu í málinu sem hann hefur meitlað í texta, tillögu flutta í ríkisstjórninni og síðan kemur í ljós að innan ríkisstjórnarinnar hefur hann hvorki stuðning formanns Sjálfstæðisflokksins né formanns Framsóknarflokksins. Ég mundi að minnsta kosti ætla að staða hæstv. ráðherra væri nokkuð í lausu lofti.

Að öðru leyti óska ég hæstv. ráðherra velfarnaðar í því að sannfæra sjálfan sig um að hann eigi að vera áfram (Forseti hringir.) á þeim stað sem hann er í nú, þ.e. í ríkisstjórn Íslands. Ég mundi velta því fyrir mér hvort það sé réttur staður fyrir hann (Forseti hringir.) ef þetta verða afdrif málsins. En ég óska honum sömuleiðis velfarnaðar í viðureign sinni við að ná fram að minnsta kosti einhverju af því sem skortir núna milli 2. og 3. umr. þó að það sé að vísu mjög langt þangað til 3. umr. hefst hér.